Eru Bretar að vakna?

Offita er alvarlegt vandamál bæði hér og erlendis. Því er nú spáð að þessi vandi muni aukast en ekki minnka á næstu árum. Af þessu má álykta að almenningur hljóti að innbyrða óhollt fæði og skorta næga hreyfingu. Mögulega er það efni í annan pistil.

En hvað með hið vitsmunalega svið? Má af atburðarás síðustu ára draga þá ályktun að almenningur sætti sig við einhliða og næringarsnautt fóður, sem stórir fréttamiðlar heimsins - og ríkisfjölmiðlar, buna yfir fólk alla daga?

Ef eitthvað er að marka pistlahöfunda Daily Telegraph, SpectatorSpiked o.fl. í Bretlandi og víðar, þá er þetta síðastnefnda hluti skýringarinnar á því mótstöðu- og gagnrýnisleysi sem einkenndi hina ískyggilegu umpólun stjórnarfars síðustu ára, þar sem hefðbundnum og stjórnarskrárvörðum viðmiðum um samskipti ríkis og borgara var kastað á glæ.

Viltu búa í réttarríki eða sóttvarnaríki? 

Í réttarríki telst fólk saklaust þar til sekt er sönnuð. Í sóttvarnaríkinu taldist fólk sekt (sýkt) þar til sakleysi var sannað. Í réttarríki er friðhelgi einkalífs virt af yfirvöldum. Í sóttvarnaríkinu er friðhelgin rofin undir yfirskini öryggis. Í réttarríkinu þjónar lögreglan almenningi. Í sóttvarnaríkinu þjónar hún stjórnvöldum. Í frjálslyndu réttaríki þjóna fjölmiðlar því hlutverki að bregða birtu á mál frá sem flestum sjónarhólum. Í sóttvarnaríkinu urðu fjölmiðlar rödd stjórnvalda. Í lýðræðisríki er tjáningarfrelsið varið sem grundvöllur frjálsra skoðanaskipta. Í sóttvarnaríkinu er ritskoðun beitt til að þagga niður í þeim sem hafa efasemdir um stefnu stjórnvalda. 

Vindarnir eru að snúast

Fyrir þá sem enn kjósa að vera á óhollu hugarfóðri, þá leyfi mér að benda á áframhaldandi umfjöllun Daily Telegraph um samskipti ráðamanna í Bretlandi í kófinu. Sá fréttaflutningur birtir æ ljótari mynd. Meginumfjöllunarefnið í dag er sálfræðihernaðurinn og óttastjórnunin sem beitt var af hálfu yfirvalda. Ef marka má viðbrögð breskra lesenda eru vindar að snúast - og það mjög kröftuglega á Bretlandseyjum. Sagan sýnir að vindátt þar hefur áhrif á íslenska hugsun og umræðu. Fólk er að átta sig á að athafnir stjórnvalda snerust mögulega meira um pólitík en vísindi. Í því birtist trúnaðarbrestur við borgarana.

Hreinskilin umræða er besta leiðin til að finna sátt 

Breskur almenningur finnur nú til vonbrigða og reiði. Í Íslandi eru ekki enn farnar að renna tvær grímur á meginþorra fólks, en gera má ráð fyrir að sú stund nálgist. Til að aftra þvi að vonbrigði, óánægja og reiði almennings finni sér óæskilegan farveg ofbeldis í orðum og gjörðum þá þurfum við að geta rætt það sem gerðist af yfirvegun, hreinskilni og með málefnalegum hætti.

Munu íslenskir fjölmiðlar, sem flestir ýttu undir valdboðið og óttann, leggja sitt lóð á vogarskálar heiðarlegs uppgjörs eða verður reynt að fegra og réttlæta allt sem gert var í nafni sóttvarna? 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband