Á háværasta fólkið að ráða för?

Í menningu sem snýst um ásýnd, útlit og kynferði fremur en að göfga innri mann og efla siðferðisþrek, er fólk orðið vant því að fylgja hjörðinni frekar en að beita gagnrýninni hugsun. Bergmálshellir samfélagsmiðla kemur að góðu gagni fyrir þá sem vilja heyra hvað hjörðin er að hugsa þá stundina, þ.e. hver er vinsælasta skoðunin.

Sá sem vill vega að sannleikanum tekur mikla áhættu

Í afhelguðu efnishyggjusamfélagi nútímans hefur afstæðishyggja gert sannleikann að olnbogabarni. Sannleikurinn er ekki lengur hlutlægur, heldur huglægur. Réttlætið er þá ekki lengur blint: Sannleiksgildi orða fer eftir því hver talar. Sagan sýnir að þegar sannleikurinn „deyr“ opnast dyr alræðis og harðstjórnar, sem umber enga sjálfstæða hugsun. Þetta birtist m.a. í því hvernig ritskoðun, skoðanakúgun og þöggun dafna á tímum afstæðishyggju. 

Afstæðishyggja veldur óförum

Í andrúmslofti afstæðishyggju eru staðreyndir gengisfelldar, en lygin réttlætt. Stendur þá nokkuð í vegi fyrir því að menn setji fram ósannindi í eiginhagsmunaskyni?

Í slíku andrúmslofti leyfa stjórnmálamenn sér að setja fram innantóm loforð þótt öllum sé ljóst að þau verði aldrei efnd. Á slíkum forsendum leyfa sérfræðingar sér að gera tilkall til áhrifa með því að setja fram óraunsæjar lausnir.

Þessi vegferð byrjar með því að menn gangast undir að allt sé afstætt og að enginn sannleikur sé til. Tilvera manna í slíkum heimi leysist fyrr eða síðar upp í baráttu um skilgreiningarvaldið, þ.e. hverjum leyfist að skilgreina hvað teljist rétt og hvað rangt. Þetta vald færist svo milli þeirra sem háværastir eru hverju sinni.

Þegar siðmenning verður afstæðishyggju að bráð er almenningur ofurseldur hreinni valdbeitingu. Ástæðan er sú að í slíku umhverfi er það valdið eitt sem ræður úrslitum. Útilokun staðreynda og afneitun sannleika er því skjótasta leiðin í átt til harðstjórnar þar sem lögin geta kveðið á um hvað sem er. Í slíku lagaumhverfi, þar sem lög eru notuð til að svipta menn lífi, frelsi og eignum, þar sem ógn og kúgun er leyfð í nafni réttlætis, verða lögmenn að þrælum, lögreglumenn að böðlum og dómarar að nokkurs konar „veraldlegum prestum“ sem leggja blessun sína yfir það sem fram fer í nafni laganna.

Lokaorð

Við slíkar aðstæður hefur hlutverk réttlætisgyðjunnar umpólast: Hún fer í manngreinarálit, beitir valdi að geðþótta, mismunar fólki (t.d. eftir kynferði), stefnir að vinsældum en ekki réttvísi. Réttlætisgyðjan þjónar þá ekki lengur réttarríkinu heldur valdinu eins og það birtist á hverjum tíma.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband