Sofandaháttur Íslendinga mun fara í sögubækurnar

Allir ættu að lesa grein Sigríðar Andersen í laugardagsblaði Moggans. Þar fjallar hún um fyrirhugaðar breytingar á löggjöf ESB um flugferðir, sem að öllu óbreyttu munu stórskaða íslenska hagsmuni. Sigríður undrast réttilega hve lítið hefur verið rætt um málið á Alþingi. Sú þögn er því miður aðeins myndbirting þess farþegahlutverks og áhrifaleysis sem Íslandi hefur verið valið innan EES. Afleiðingin er sú að Alþingi er að breytast í áhrifalaust leikhús, þar sem erlendar reglur eru samþykktar umræðulaust, en embættismenn eru gerðir að ,,lobbíistum". Þetta er umbreyting og afturför sem á sér enga stoð í stjórnarskrá Íslands. 

Í fréttum kemur fram að tugir árangurslausra funda hafi verið haldnir um þetta mál. Það hefur þótt vera til marks um einhvers konar vitfirringu að margítreka sömu athöfn og ímynda sér að niðurstaðan verði önnur. 

Ef Íslendingar stæðu vörð um lýðræðislegt stjórnarfar gætu þeir séð og viðurkennt að það er með öllu óásættanlegt að við fáum lögin send hingað í formi tilskipana sem við höfum ekkert um að segja, hvorki til að breyta efni þeirra né til að hafna þeim. Til að bæta gráu ofan á svart svarar „löggjafinn“ (lesist: ESB) ekki til neinnar ábyrgðar gagnvart okkur sem móttakendum þessara sömu reglna. Hlutverk okkar er aðeins eitt í þessu samhengi: Að hlýða.

Hvað heitir þetta stjórnarfyrirkomulag á mannamáli annað en ofríki? Hvers vegna ættu Íslendingar að lúta lögum sem þannig verða til og er beint til okkar með þeim hætti sem hér var lýst? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband