,,Varist að láta nokkurn leiða yður í villu". 

Það er erfitt að verjast þeirri hugsun að hinn vestræni heimur sé genginn af göflunum. Undir vökulu auga hins alsjáandi og allt umlykjandi veraldlega valds, þar sem ríkisstarfsmenn ganga erinda alþjóðlegra auðhringa, þar sem ríkisstyrktir fjölmiðlar básúna ósannindi um stræti og torg, þar sem svart er hvítt, stríð er friður, karlar með varalit eru konur og 2+2 eru 5, þá er erfitt að varðveita sjálfan sig og standa vörð um eigin heilindi. Auðveldasta leiðin til að endurstilla áttavitann og ná að hugsa heila hugsun í friði, er að skrúfa fyrir allan þennan hávaða, opna ekki tölvuna, slökkva á fréttatímanum o.s.frv. Fólk sem býr við alræði horfir ekki á fréttir nema tilneytt, því þau hafa næmt auga fyrir áróðri. Fréttastofur á Vesturlöndum þjóna nú sama tilgangi, þ.e. að færa okkur ósannindi sem við eigum að trúa, svo sem að núverandi forseti Bandaríkjanna sé vel hæfur og að honum sé treystandi til að gegna því embætti, að sprautuherferð yfirvalda gegn Covid-19 hafi verið vel heppnuð, að „vísindin“ tali einni röddu og að sú rödd sé óspillt og óháð alþjóðafyrirtækjum sem dæla fjármagni í rannsóknir á eigin framleiðslu.

Eftir reynslu síðustu ára fækkar óðum þeim sem telja upplýsandi að hlusta á ,,stóra og rótgróna fjölmiðla“, sem svonefnt „Árvekniátak“ Fjölmiðlanefndar taldi trúverðugri en aðra samhliða því að tilgreina sérstaklega leitarvél Google sem hjálpartæki við að greina falsfréttir, þar sem m.a. má finna eftirfarandi speki:

Alvöru fréttir birtast sjaldnast bara á einum fréttamiðli. Kannaðu hvort aðrir, t.d. stórir og rótgrónir fjölmiðlar, hafi fjallað um málið. Prófaðu að slá fyrirsögnina eða aðrar upplýsingar inn í leitargluggann á Google eða annarri leitarvél. Ef ekkert kemur upp, þótt efni fréttarinnar sé sláandi, hefurðu góða ástæðu til að efast.

Þótt það hafi farið fram hjá launuðum starfsmönnum Fjölmiðlanefndar, þá er flestum öðrum orðið ljóst að Google er ekki treystandi fyrir horn þegar kemur að því að greina milli þess sem er rétt og rangt. Ef menn eru í vafa má benda á þetta stutta viðtal við aðstoðar-aðalritara SÞ á sviði alþjóðasamskipta, þar sem hún lýsir því hvernig Google hefur gengið yfirþjóðlegu valdi á hönd í því skyni að fela upplýsingar sem ekki samræmast hinni einu „réttu“ línu, sjá hér, þar sem lýst er yfir ,,eignarhaldi" á vísindunum.

Þrátt fyrir allt ofangreint er venjulegt fólk ekki gengið af vitinu. Flestum er í hjarta sínu ljóst að það er verið að segja okkur að taka ósannindi fram yfir sannindi, og jafnvel trúa því að illt sé gott. En ragmennskan leikur mannkynið grátt og í vanhugsaðri sjálfsbjargarviðleitni víkja menn sér undan því að stíga niður fæti, standa með sjálfum sér og andmæla. Athafnaleysið og þögnin ver okkur ekki, heldur þvert á móti vinnur með þeim sem beita rangindum, falsi og gerræði. Á slíkum tímum jafngildir hugleysi ekki hlutleysi.  

Myrkustu staðir vítis eru fráteknir fyrir þá sem ríghalda í hlutleysi sitt á tímum siðferðilegrar upplausnar. (Dante Alighieri) 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband