Örlagaspurningar lands og þjóðar

Í örstuttu máli má lýsa Íslandssögunni svona: Menn sigldu yfir hafið í leit að frelsi undan ofríki og skattpíningu, stofnuðu Alþingi 930 til þess að geta leyst úr ágreiningi með lögum í stað hnefaréttar, mótuðu lögin í sameiningu og urðu þar með að einni heild, þjóð sem átti lögin í sameiningu, landið, hefðir, sögu og síðast en ekki síst tungumálið. 

Í tíð núverandi ríkisstjórnar hefur verið vegið svo alvarlega að þessum undirstöðum þjóðríkisins að komið er að ögurstundu í sögu þessarar þjóðar. Hver erum við sem hér búum? Hvað sameinar okkur? Er rétt að afsala löggjafarvaldinu úr landi og afnema þannig í reynd sjálfstæði þjóðarinnar með því að láta Ísland renna inn í mun stærri réttareiningu? Hafa menn hugsað til enda hvað gerist þegar handhafar löggjafarvalds svara ekki til ábyrgðar gagnvart borgurunum? Hverfur þá ekki frumforsenda þess frelsis sem landnámsmenn leituðu að?Þegar gagnkvæmar skuldbindingar milli ríkis og borgara gufa upp þá umbreytumst við í þegna sem hafa það eina hlutverk að borga og hlýða. 

Hvað kennir sagan okkur um hættuna af ríkisvaldi sem ekki er bundið af stjórnarskrá og lýtur ekki lýðræðislegum reglum? Hvað heldur aftur af miðstýrðu valdi þegar almenningur hefur ekki lengur bein áhrif, engan lýðræðislegan vettvang til að koma saman og ákvarða sameiginlega framtíð sína? Hvað gerist þegar fólk er ekki lengur fullvalda, frjálst og sjálfstætt sem einstaklingar og sem þjóðir?

Hverju tilheyrum við ef við erum ekki lengur þjóð heldur bara tilviljanakennt samansafn af fólki sem býr á sama stað? Er betra að tilheyra þrýstihópi eða skilgreina sig út frá útliti? Geymir sagan ekki ótal hörmuleg dæmi um það þegar hugmyndafræði / hagsmunir / hóphyggja er gerð að kreddu? Hverjar eru afleiðingar þess að íbúar lands eiga ekki nógu mikið sameiginlegt til að geta notað orðið ,,við" um þá sem landið byggja? Býður slíkt ástand ekki heim hættu á stöðugum átökum og ófriði? Þurfum við ekki að eiga hlutdeild í lögunum til að geta átt hlutdeild í framtíðinni? 

Ísland er landið sem fóstrar okkur. Íslendingar elska landið sitt og vilja tilheyra því. Það er friðsælt sameiningartákn, sem ögrar ekki. Sem fámenn þjóð eigum við okkar dýrmæta tungumál sem geymir perlur menningarsögunnar. Heilvita fólk kastar ekki dýrum perlum á glæ. 

Þegar lagareglur streyma í síauknum mæli utanfrá, frá ESB og SÞ, þá tekur stjórnarfarið að líkjast harðstjórn. Þegar fólk á ekki lengur hlutdeild í lögunum sem það á að búa við verða lögin ekki lengur sameign okkar heldur fyrirskipanir annarra. Undir slíku kúgunarvaldi dofnar smám saman tilfinning almennings fyrir því að þau séu bundin af lögum. Slíkt ástand leyðir til upplausnar, stjórnleysis og ofbeldis, þar sem hnefarétturinn ræður, en lögin eyðast. 

Sjálfstæðisflokkurinn ber mikla ábyrgð á því hvernig komið er. En hann á ennþá möguleika á því að rétta kúrsinn og gerast sá málsvari réttarríkis, lýðræðis og sjálfstæðis, sem honum er ætlað að vera. 

Fyrr í sumar hef ég boðað fundahöld um hvert flokkurinn stefnir. Nú styttist í flokksráðsfund XD sem haldinn verður 26.8. nk. Best fer á því að flokksmenn geti truflunarlaust ákvarðað þar næstu skref - og þar með örlög flokksins í bráð og lengd. Fundirnir sem ég hef áður boðað verða haldnir þegar sú stefna hefur verið mörkuð. Þá vitum við betur hvar við stöndum og getum rætt um fyrirliggjandi staðreyndir í stað þess að halda áfram að vara við vondum stefnumálum sem mögulega verða aflögð á flokksráðsfundinum.  

Þegar hjólin fara að snúast á fullum hraða í september og félagasamtök boða til funda, þá er ég tilbúinn að fara hvert á land sem er til að ræða þessi mál. Áhugasamir geta sent mér beiðni um slíkt á arnarthor@griffon.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband