Á helvegi?

Vestræn réttarhefð hefur fram að þessu viðurkennt að ofar lögum manna standi æðri lög, lög Guðs og lög náttúrunnar, sem allir menn þurfa að lúta. Fjölmörg dæmi mætti tilgreina til marks um það að konungar og keisarar hafa viðurkennt að slík æðri lög takmörkuðu vald þeirra, sbr. m.a. Magna Carta (1215), Gamla sáttmála (1262) o.fl. Kórónur sem beina oddum til himins tákna að konungar áttu að þjóna hlutverki sem tengiliðir milli himins og jarðar. Þetta er nefnt hér til að undirstrika mikilvægi þess að við séum ekki ólæs á tákn og táknmyndir sem lita allt okkar daglega líf. kóróna
Í trúarlegu og sögulegu samhengi byggir þessi afstaða á lögmáli Móse, heilagri ritningu og viðurkenningu á þeirri sögulegu staðreynd að veraldlegt vald verður að lúta takmörkunum ef ekki á illa að fara.
Saga 20. aldar undirstrikar að verstu valdníðingar og fjöldamorðingjar sögunnar hafa verið valdhafar sem reyndu að setjast í guðlegt sæti og gera eigin stjórnmálakreddur að ríkistrú, sbr. alræðisstjórnir kommúnista, fasista og nasista sem enn standa óþægilega nærri okkur í tíma og varpa enn löngum skuggum yfir stjórnmál Vesturlanda. Þótt einkennisbúningarnir séu ekki sjáanlegir (ennþá) virðist hugarfar margra vera sýkt af þeirri hóphyggju sem þessar stefnur boðuðu, þar sem einstaklingurinn er ekki viðurkenndur nema sem partur af hjörðinni og þar sem samfélaginu er skipt í fylkingar þeirra sem hugsa rétt / rangt, sem eru hreinir / óhreinir, réttlátir / ranglátir. 
Sagan færir okkur ótal viðvaranir um það að samfélag sem afneitar Guði er á helvegi. Löggjafarþing sem vanvirðir eigin lög fetar sömu slóð. Ríkisstjórn sem telur sig óbundna af stjórnarskrá ryður lögleysu braut. Ráðherrar sem ganga í þjónustu erlends valds og lofa að framfylgja ólýðræðislegri / mannfjandsamlegri / guðlausri hugmyndafræði óvirða með því skuldbindingar sínar gagnvart eigin kjósendum. Slíkir valdhafar eru í raun að rjúfa tryggð við kjósendur sína og almenning í landinu.  
Ef ráðamenn þjóna ekki Guði og telja sig óbundna af nokkru sem kalla mætti æðri lög, hvað takmarkar þá vald þeirra? Þjóna þau þá engun nema sjálfum sér? Valdhafar sem á fyrri öldum settu lög á eigið eindæmi og virtu ekki löghelgaðan rétt samfélagsins voru kallaðir harðstjórar og þá mátti setja af - með valdi ef með þurfti. 
Í Grágás er texti sem fangar vel þá hugsun sem ég reyni hér að koma til skila:
En sá ykkar er gengur á gervar sáttir eða vegur á veittar tryggðir þá skal hann svo víða vargur rækur og rekinn sem menn víðast varga reka, kristnir menn kirkjur sækja, heiðnir menn hof blóta, eldur upp brennur, jörð grær, mögur móður kallar og móðir mög fæðir, aldir elda kynda, skip skríður, skildir blíkja, sól skín, snæ leggur, Finnur skríður, fura vex, valur flýgur vorlangan dag, stendur honum byr beinn undir báða vængi. [...] Haldið vel tryggðir að vilja Krists og allra manna sem nú heyrðu tryggðamál. Hafi sá hylli Guðs er heldur tryggðir en sá reiði er rýfur réttar tryggðir.
Í siðmenntuðu samfélagi virða menn prinsipp, rjúfa ekki tryggðir og standa í fæturna gegn hópþrýstingi og tískusveiflum. 
Núverandi kynslóð hefur fengið dýran arf í hendur, lög, frelsi, lýðræði, siði og venjur. 
Æðstu embættismenn hafa skyldur við þennan arf og allan almenning. Öll embættisfærsla á því að bera vott um að þau virði skyldur sínar að þessu leyti. Treysti þau sér ekki til að ganga á undan með góðu fordæmi ber þeim að víkja úr embætti.  
 
 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband