Grunnstefna Sjálfstæðisflokksins miðar að sjálfstæði, ekki ósjálfstæði

Björn Bjarnason hefur birt óteljandi greinar í blöðum og tímaritum sl. áratugi, en aldrei verri grein en þá sem birtist í sunnudagsútgáfu Morgunblaðsins (27.8.), því þar afhjúpar BB úrelta heimsmynd manns sem hefur tapað pólitískum, lagalegum og hagfræðilegum áttavitum sínum. Grundvallarforsendur þær sem BB byggir grein sína á brustu fyrir mörgum árum og greining BB er því bjöguð, villandi, ósönn og ónothæf. Meginland Evrópu er mjög á fallanda fæti í hagfræðilegu tilliti. Hagvöxtur framtíðarinnar og sóknarfæri eru í Asíu, en ekki í Evrópu. Hröð öldrun evrópuþjóða og minni framleiðni mun augljóslega leiða til þess að Evrópa verður aukaleikari í nýrri heimsmynd þar sem valdaþræðirnir munu liggja frá Bandaríkjunum yfir Kyrrahafið til Indlands og Kína en ekki yfir Atlantshafið. Í því ljósi er óskiljanleg þessi þráhyggja BB í þá átt að Íslendingar skuli binda sitt trúss æ fastar við haltrandi og brögðóttan skrifræðisjálk ESB. Þrátt fyrir þetta lýkur BB grein sinni í anda áróðursmeistara fyrri tíðar með því að segja að Sjálfstæðisflokkurinn eigi að ,,opna fyrir framtíðarbirtu" úr austri. Þessi myndlíking BB vekur upp óþægileg hugrenningatengsl við málsvara alþjóðlegs sósíalisma sem horfðu vonaraugum til roðans í austri.  

Ég vil ekki gera því skóna að BB vilji villa um fyrir lesendum. Því ætla ég að ganga út frá að hann viti ekki betur og vil því benda á nokkur undirstöðuatriði honum til upplýsingar og upprifjunar:

  • Samkvæmt 2. gr. stjórnarskrárinnar fara Alþingi og forseti Íslands saman með löggjafarvaldið. Þar er m.ö.o. ekki gert ráð fyrir að erlendar stofnanir geti sett Íslendingum lög eins og frumvarpið um bókun 35 miðar við. 
  • Eðlisbreyting hefur orðið á EES samstarfinu á þeim 30 árum sem liðin eru frá lögfestingu þess. Stafar það ekki síst af þeirri staðreynd að viðsemjandinn hefur stökkbreyst í átt til sambandsríkis, sem seilist eftir sífellt meiri völdum innan aðildarríkja. Framhjá þessu horfir BB algjörlega. 
  • Ísland er ekki aðildarríki ESB og Íslendingar hafa aldrei samþykkt að gangast yfirþjóðlegu valdi á hönd í þeim mæli sem frumvarpið um bókun 35 miðar að. 
  • Ef Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að laumupokast með Ísland inn í ESB, þá er það óheiðarlegt gagnvart kjósendum flokksins og Íslendingum almennt. XD leyfist ekki að bera kápuna á báðum öxlum og draga Ísland undir áhrifavald ESB án þess að hafa orð á því beint, enda á slík fyrirætlan sér enga stoð í stefnuskrá flokksins.
  • Í frjálsu lýðræðisríki verður stjórnskipulagi og stjórnarfari ekki breytt með laumuspili. Slík breyting verður ekki réttlætt með vísan til lögfræðiálita, síst af öllu í ljósi þess að EES samningurinn var fyrir 30 árum talinn ganga út á ystu nöf þess sem stjórnarskrá okkar leyfir.   
  • Áður en sorfið er að sjálfstæði þjóðar með frumvarpi eins og þessu þarf að fara fram lýðræðisleg umræða. Ef niðurstaðan er sú að halda áfram þá verður að gefa almenningi kost á að kjósa um hvort taka eigi upp nýtt stjórnarfar, þar sem völdin eru afhent ósýnilegum og fjarlægum mönnum sem svara ekki til ábyrgðar gagnvart kjósendum.
  • Með frumvarpi utanríkisráðherra er verið að veikja stöðu íslensks réttar og grafa undan Alþingi, sem burðarstoð lýðveldisins. 
  • ESB er ekki málsvari frjálsrar verslunar, heldur verðsamtök sem reisa skorður gagnvart viðskiptum utan frá. Mengunarskattur ESB á íslensk skipafélög er ein myndbirting þess hvernig slíkur samráðshringur starfar.  

Þjóð sem hefur ekki fullt forræði á eigin lagasetningu, þjóð sem hefur undirgengist að greiða skaðabætur til yfirþjóðlegs valds ef hún setur lög í andstöðu við réttareininguna sem yfirvaldið krefst, sú þjóð er ekki lengur frjáls og fullvalda. Öfugt við fullyrðingar BB getur slík þjóð ekki haldið uppi varðstöðu um grunnstoðir samfélagsins.

BB á þakkir skildar fyrir að birta þessa vondu grein. Hún afhjúpar að hann hefur orðið viðskila við grunnstefnu Sjálfstæðisflokksins.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband