Hvað getum við lært af sögunni?

Í Reykjavíkurbréfi Moggans (10.3.2024) er m.a. fjallað um rómverska ræðusnillinginn Cicero (106-43 f.Kr.). Eftirfarandi línur eru skrifaðar af því tilefni.
Í rómverska lýðveldinu, sem stóð í nær 5 aldir, bjuggu borgararnir við réttarvernd sem ekki hafði áður þekkst. Óskrifuð stjórnarskrá lýðveldisins mælti fyrir um mótvægi og aðhald, dreifingu ríkisvalds, synjunarvald æðstu embættismanna, afmörkuð kjörtímabil, réttláta málsmeðferð, reglulegar kosningar o.fl. Allt var þetta styrkt með áherslu á gott og farsælt líf, þar sem hinar grísku höfuðdyggðir stóðu í forgrunni (hugrekki, viska, hófsemi, réttlæti).Cicero
Cicero lifði hnignunartíma Rómaveldis, þar sem spilling og valdafíkn höfðu grafið um sig í stjórnkerfinu og þar sem ytri ásýnd lýðveldisins var að molna, ekki aðeins vegna sundrungar innanlands, heldur einnig vegna stríðsrekstrar á fjarlægum slóðum og vegna þess að stöðugt fleiri sóttu framfærslu sína til ríkisins. Stjórnmálamenn mærðu lýðveldið í orðum en grófu undan því í verki með því að hagnýta sér pólitísk tengsl í þeim tilgangi að seilast sjálfir til auðs og valda. Embættismenn sem höfðu það hlutverk að standa vörð um lýðveldið urðu spillingu að bráð og létu múta sér með greiðslum úr opinberum sjóðum. Í þessu umhverfi, þar sem ofbeldisverk urðu sífellt tíðari og stjórnmálin stöðugt hatrammari, urðu Rómverjar sinnulausir um frelsi sitt, lýðveldið og stjórnmálin.
Óhjákvæmilega sogaðist Cicero inn í pólitísk átök samtíma síns. Að lokum neyddist hann til að velja milli Sesars og annars leiðtoga að nafni Pompey. Cicero tók stöðu með Pompey þar sem hann taldi lýðveldinu stafa minni hætta af honum. En Sesar hafði sigur úr býtum og kúgaði svo þingmenn til að skipa hann keisara til lífstíðar. Mánuði síðar var Sesar myrtur í þinginu af lýðveldissinnum. Markús Antoníus reyndi að taka við af Sesari sem einræðisherra en Cicero lagðist þvert gegn því í 14 kynngimögnuðum ræðum, þar sem hann sagðist hvorki ætla að svíkja lýðveldið, né skjálfa af ótta frammi fyrir harðstjórum. ´
Andstaðan kostaði það að Cicero var útnefndur „óvinur ríkisins“. Þegar leigumorðingi ríkisins vitjaði hans krafðist Cicero þess eins að drápið yrði „sómasamlegt“.
Með andláti Ciceros var síðustu hindrun harðstjórnar rutt úr vegi. Hið 500 ára lýðveldi leið undir lok. Á rústum þess reis keisaralegt alræðisríki. Valdhafar hafa komið og farið síðan, en nafn Ciceros hefur lifað í rúmlega 2000 ár - og lifir enn, því hann hörfaði ekki undan hótunum né harðstjórum, heldur hélt á lofti þeim kyndli sem enn logar: Frumskylda ríkisvalds er að verja frelsi einstaklinganna og eignarétt þeirra. Þótt hugsjónirnar hafi kostað hann lífið, þá veitir hugrekki hans innblástur enn í dag. [Heimild: Real Heroes, Lawrence W. Reed,2016]

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Birgir Loftsson

Búinn að skrifa undir nafn þitt á stafræna meðmælalistanum. Þú munt eiga við tvo eða þrjá erfiða mótherja en við því er að búast.  Gangi þér vel!

Birgir Loftsson, 11.3.2024 kl. 08:10

2 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

ég hélt mig vera búin að skrifa undir þann lista,mundi glöð skrifa daglega þyrfti þess við.

Helga Kristjánsdóttir, 11.3.2024 kl. 15:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband