28.2.2023 | 09:12
Úlfakreppa stjórnmálanna.
Nýjar reglur frá ESB munu valda því að íþyngjandi losunarskattar verða lagðir á flug til og frá íslandi. Málið er ljóslega viðkvæmt á ýmsa kanta, en varpar um leið ljósi á það sem er að gerast á bak við leiktjöld / ytri ásýnd stjórnmálanna.
Hefðbundin stjórnmál eru að leysast upp í einhvers konar sjónhverfingu. Á bak við tjöldin stýrir tækniveldið för (vísindi, tækni og iðnaður). Tækniveldið er alþjóðlegt og starfar utan við stjórnmál þjóðríkjanna. Afleiðingarnar má sjá í því hvernig lýðræðið víkur fyrir einhvers konar tækniræði og hvernig hagsmunir þjóðríkisins víkja fyrir yfirþjóðlegum sjónarmiðum. Kjörnir stjórnmálamenn telja sig ekki eiga annan kost en að staðfesta það sem þegar hefur verið ákveðið annars staðar. Þetta þýðir að lagasetning er í síauknum mæli hugsunarlaus innleiðing erlendra reglna. Þetta birtist líka í því hvernig innlendir embættismenn fylgja í blindni línum sem lagðar hafa verið erlendis.
Til að dylja þessa umbreytingu fyrir almenningi er lögð mikil áhersla á að halda uppi ásýnd sjálfstæðis og lýðræðis. Gagnvart kjósendum er mikilvægt að þessi ásýnd haldi velli, því afhjúpun gæti valdið almennum óróa. Stöðugt erfiðara verður þó að fela þá breytingu sem er að eiga sér stað: Stjórnmálin eru að umbreytast í gervistjórnmál. Á sama tíma er raunhagkerfið sett í þumalskrúfur gervihagkerfis sem á hugmyndafræðilegum grundvelli vill m.a. stýra orkunotkun og eldsneytisvali, sbr. m.a. áðurnefnda losunarskatta.
Framangreind umbreyting er hvergi rædd. Stjórnvöld vinna að lausn á bak við tjöldin með lobbíisma. Þar með eru íslensk yfirvöld í reynd farin að starfa samkvæmt erlendum leikreglum, en ekki á þeim skýra grundvelli sem stjórnarskráin markar lýðveldinu okkar. Að þetta sé hvergi gagnrýnt er til marks um það hversu máttlaus pólitisk rökræða er orðin.
Kjósendur sitja í raun uppi með valdhafa í erlendum borgum sem svara ekki til neinnar ábyrgðar vegna afleiðinga þeirra ákvarðana sem teknar eru. Í slíku umhverfi er ekki við öðru að búast en einmitt því sem blasir við í tilviki losunarskattanna, þ.e. að ákvarðanir t.d. miðist við hag / ásýnd valdsins (ESB) fremur en hugsanlegt tjón Íslendinga. Þegar hagsmunir valdhafa fara ekki lengur saman við hagsmuni þegnanna hlýtur að koma að því að áhorfendur bauli á leikarana (stjórnmálamenn) og vilji yfirgefa leikhúsið.
Ef stjórnmálamenn á Íslandi vilja afstýra því að algjör trúnaðarbrestur verði milli þeirra og kjósenda þarf að viðurkenna þá stöðu sem uppi er og taka hana til heiðarlegrar umræðu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.2.2023 | 07:39
Ísland gerir út ,,lobbíista" en finnur ekki orðið ,,nei" í orðabók.
Í lýðræðisríkjum er gengið út frá því að ríkisvald stafi frá þjóðinni. Lýðræðið hvílir á stjórnarskrárvörðum rétti manna til sjálfsákvörðunar, þ.e. að við séum fær um - og að okkur sé treystandi til - að mynda okkur skoðun og taka sjálfstæðar ákvarðanir.
Á þessum grunni var (eðlilega) spurt árið 1992 hvort EES samningurinn fæli í sér of mikið framsal á ríkisvaldi, þannig að framangreindu samhengi teldist raskað. Alþingi lögleiddi samninginn á skýrri grundvallarforsendu: Ísland gæti ekki farið inni í EES nema við hefðum neitunarvald um hvaða tilskipanir við tækjum inn í íslenskan rétt.
Til að verja hinn lýðræðislega grundvöll settu Íslendingar fyrirvara í EES samninginn um að við gætum hafnað löggjöf og reglum sem passa okkur ekki eða samræmast ekki íslenskum þjóðarhagsmunum. Þetta var meginforsenda.
Þessi frétt undirstrikar hversu illa er fyrir okkur komið. Íslenska ríkið kýs að laga sig að ólýðræðislegum leikreglum í Brussel til að komast hjá því að þurfa að beita samningsbundnu neitunarvaldi. Er skilningur ráðamanna (og borgaranna) orðinn svo útvatnaður að við hirðum ekki lengur um þau gildi sem lýðveldið var reist á? Til grundvallar stofnun sjálfstæðs lýðveldis lá hugsjónin um að við sem þjóð skyldum stjórna okkur sjálf, ráða okkar eigin örlögum, setja okkar eigin lög: Enginn ólýðræðislegur valdhafi, engir ósýnilegir skriffinnar skyldu ráða örlögum íslenskrar þjóðar.
Vilja Íslendingar ekki ennþá vera frjálsir og sjálfstæðir? Viljum við ekki ráða okkur sjálf? Viljum við ekki nýta þau tækifæri sem í því felast? Til að það sé hægt þurfum við að geta tjáð hugsanir okkar - og þora að tjá okkur. Nú hafa 30 ár liðið án þess að Ísland hafi beitt neitunarvaldinu.
Ef við viljum vera frjáls og sjálfstæð þjóð þurfum við að taka ábyrgð á þeim réttindum sem því fylgja. Það verður ekki gert nema með því virkri þátttöku borgaranna og með því að embættismenn ríkisins sinni hagsmunagæslu á réttum grunni. Höfum við ekki áhuga á að verja frelsið? Nennum við ekki að axla ábyrgð á þeim skyldum sem því fylgja? Ef við veljum afskiptaleysi og skeytingarleysi er fórnarkostnaðurinn sá að við munum horfa á lýðveldið veikjast og deyja. Heilsa og líf þessarar lýðræðistilraunar, sem íslenska lýðveldið er, stendur og fellur með afstöðu okkar - og þeirra sem valist hafa til ábyrgðarstarfa í okkar þágu.
Það er sterk undiralda í stjórnmálunum, sem ekki er lýðræðisleg og virðir ekki sjálfsákvörðunarrétt manna og þjóða. Ef Íslendingar opna ekki augun fyrir þessari undiröldu verða þeir að treysta því að þeim sé betur borgið í umsjá erlendra embættismanna og yfirþjóðlegra stofnana. Er það betra en að búa við stjórn kjörinna fulltrúa sem bera ábyrgð og hollustuskyldu gagnvart þingi og þjóð?
![]() |
Róa öllum árum að því að Ísland losni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.2.2023 | 12:26
Í þjónustu hvers?
Fyrri kynslóðir sáu líf sitt í órofa samhengi við líf forfeðra sinna. Líf þeirra var líka hluti af lífi afkomendanna. Fólk lifði í meira mæli í þjónustu við aðra, Guð og samfélagið. Menn tilheyrðu fámennum samfélögum, þar sem hver og einn hafði hlutverki að gegna. Líf nútímamannsins snýst fyrst og síðast um hann sjálfan. Hjálpræði sitt og sjálfsmynd reynir hann að sækja í hugmyndafræði sem er ekki trúarleg. Í hópnum samsama menn sig hver með öðrum og sækja jafnvel einkenni sín til hópsins. Þetta fæðir af sér alls konar þversagnir: Svið einkalífsins verður stöðugt þrengra á sama tíma og félagsleg einangrun fer vaxandi. Félagsleg tengsl trosna. Fjölskyldur brotna. Í þessu umhverfi er ekki skrýtið þótt fólk glími við ótta, þunglyndi, tómleika og tilgangsleysi.
Ein leiðin til að bregðast við þessu er að reyna að þenja út sjálfsímyndina með því að leita viðurkenningar annarra. Samfélagsmiðlar þrífast á þessu, þ.e. að vera vettvangur þar sem menn geta sótt (falska) staðfestingu á eigin virði í augum annarra.
Svonefndir samfélagsmiðlar blómstra í menningu þar sem velgengni er ekki mæld út frá öðru en samanburði við aðra, þar sem virði fólks er mælt í vinsældum (lækum), þar sem ásýnd vegur þyngra en athafnir, þar sem aðdáun er mikilvægari en virðing, þar sem betra er að virðast en að vera, þar sem hégóminn stýrir för en ekki innri rödd, þar sem menn sækjast eftir vindi en ekki sönnum verðmætum. Almannatenglar og áróðursvélar koma að góðum notum til að nálgast hin eftirsóttustu verðmæti nútímans: Ásýnd og ímynd.
Eins og fiskur í sem syndir í slíku vatni stefnir nútímamaðurinn að því að líta vel út í augum annarra; ganga í takt við hópinn; viðra aðeins vinsælar skoðanir; markaðssetja sjálfan sig sem dýrmætan starfskraft með sveigjanlegt gildismat.
Við erum vissulega öll sérstök, en við megum ekki gleyma því að við erum öll af sama meiði. Efniviður okkar allra er sá sami. Í grunninn erum við sköpuð í Guðs mynd, með guðsgjafir sem okkur ber að rækta - öðrum til góðs.
Bloggar | Breytt 27.2.2023 kl. 12:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.2.2023 | 09:22
Hafa falsguðirnir snúið aftur?
,,Við lifum á ótrúlegum tímum, þar sem allt virðist vera á hverfanda hveli. Stríð er friður, svart er hvítt, lygi er sannleikur. Í yfirheyrslum á Bandaríkjaþingi í þessari viku kom fram að fólk sem ekkert hefur lært í læknisfræði hafi tekið sér ritskoðunarvald yfir hámenntuðum læknum frá fínustu háskólum heims af því að stefna fyrirtækisins (samfélagsmiðilsins) hafi bannað að tiltekin sjónarmið fengju að birtast! Hvernig höldum við áttum í slíku umhverfi? Hvernig höldum við sönsum? Hvernig varðveitum við heilindi okkar? Hvernig höldum við samviskunni hreinni?"
Þetta er upphaf greinar sem birt var á Krossgötum nú í morgun. Sjá alla greinina hér.
Bloggar | Breytt 13.10.2023 kl. 10:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.2.2023 | 10:26
Sinnuleysi um þjóðmál framkallar pólitískar ófarir
Í gær birti Telegraph frétt þar sem sagt er frá því að embættismenn í heilbrigðiskerfinu séu nú að setja upp viðbragðsáætlanir vegna mögulegs heimsfaraldurs, í þetta sinn fuglaflensu. Sú flensa bætist þá við langan lista fyrri heilsufarsógna: Bólusóttar, svínaflensu, Zika, ebólu, apabólu og C-19. Ef marka má athugasemdir breskra lesenda hafa þeir engan húmor fyrir stjórnarfari þar sem sérfræðingar hóta ítrekað að hrifsa til sín valdatauma.
Hérlendis var þingræðið afnumið í kófinu, mannréttindaákvæði stjórnarskrár tekin úr sambandi og landinu í reynd stjórnað með tilskipunum í stað laga. Þetta létu Íslendingar sér vel líka og virðast enn ekki átta sig á ógninni sem þetta fordæmi leiðir yfir okkur.
Næsta alvarlega flensa sem birtist við sjóndeildarhringinn mun gefa sérfræðingum nýtt tilefni til að stýra í átt til einhvers konar heilbrigðis-harðstjórnar. Ef marka má reynsluna byggir slíkt stjórnarfar á því að "umhyggjusemi" yfirvalda réttlæti víðtækar frelsisskerðingar.
Við þessar aðstæður gleymist að ákvarðanir sem varða daglegt líf og frelsi eiga að vera teknar af lýðkjörnum fulltrúum almennings og á grundvelli laga, þar sem menn starfa innan stjórnarskrárvarins ramma sem ætlað er að tryggja að hver einasti þáttur valdsins geti virkað eins og bremsa gagnvart öðrum greinum ríkisvalds.
Ef öryggisventlum stjórnarskrár er hent út um gluggann og þess í stað stjórnað í nafni "umhyggju", "heildarhagsmuna" o.fl., þá er hættan sú að sérfræðingar velji svörin út frá of þröngu sjónarhorni. Sagan sýnir að við slíkar aðstæður er borgaralegt frelsi fyrr eða síðar lagt á höggstokkinn í nafni "almannahags". Slík sérfræðingastjórn er andstæð öllu því sem lýðræðið og þrígreining ríkisvalds á að tryggja. Víðsýni er þá fórnað fyrir þrönga sérfræðisýn og stjórnskipulegu aðhaldi kastað fyrir róða.
Ef stutt er í næsta heimsfaraldur þá þarf að eiga sér stað alvöru umræða um það stjórnarfar sem slíkt mun leiða yfir okkur. Þá þarf m.a. að ræða hvernig almenningur geti betur varið og virkjað öryggisventla stjórnarskrár, laga og stjórnmála. Stórar ákvarðanir eiga að byggjast á lögum, grundvallast á lýðræðislegri umræðu og heildrænni sýn, en ekki þröngri sýn embættismanna í einum hluta stjórnkerfisins.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.2.2023 | 10:02
Aðgát skal höfð.
Eftirfarandi línur eru ekki settar á blað í þeim tilgangi að láta brenna mig á báli, heldur til að minna á mikilvægi þess að við beitum eigin dómgreind og innsæi til að tempra kennivald lækna o.fl. Þessi færsla er ekki skrifuð til að taka afdráttarlausa afstöðu gagnvart fóstureyðingum / þungunarrofi, sem eru alltaf erfið siðferðileg viðfangsefni og varða nánustu tengsl og viðkvæmar tilfinningar, en vissulega líka samfélagið og lögin á hverjum tíma. Umræðu um slík málefni má ekki drepa niður eða banna. Þegar um er að ræða vandmeðfarin mál þarf að gæta ítrustu nærgætni, tillitssemi og virðingar, en forðast um leið að rjúfa hið nauðsynlega samhengi hlutanna.
Þessi litla frétt í Mogganum í dag segir frá 4ra ára dreng sem kom í heiminn "of snemma eftir að fylgja móður hans hætti að virka eftir 20 vikur. Læknar tilkynntu henni að aðeins 10% líkur væru á að barnið myndi lifa en hún var látin fæða hann eftir 28 vikna meðgöngu. Henni var einnig tjáð að Jamie myndi glíma við þroskahömlun og námsörðugleika. Í dag er hann þó langt á undan jafnöldrum sínum á ýmsum sviðum". Skv. fréttinni hefur Jamie vakið heimsathygli vegna stærðfræðikunnáttu sinnar og getur reiknað á a.m.k. fimm tungumálum.
Fréttin er gleðileg, en vekur lesandann líka til umhugsunar. Hið afhelgaða efnishyggjusamfélag okkar tíma viðurkennir sérstöðu og réttindi allra fyrir lögunum, þ.e. allra nema ófæddra barna í móðurkviði, sem ekki öðlast réttarvernd fyrr en eftir lok 22. viku meðgöngu. Fyrir þann tíma er barnið ekki talið mennskt og án mannréttinda. Hvaða líffræðilegri tegund tilheyrir fóstur fyrir þetta tímamark, þ.e. áður en það skyndilega breytist í mannveru?
Með lögum nr. 43/2019 var hugtakið fóstureyðing fellt úr lögum en þungunarrof tekið upp í staðinn þar sem sumir töldu fyrrnefnda hugtakið "gildishlaðið, villandi og jafnvel rangt". Í umræðum um frumvarpið í þingsal kom m.a. fram að ekki ætti að tala um fóstur fyrir 12. viku, heldur "frumuklasa", en sú orðnotkun er til þess fallin að svipta fóstur mennsku og mannhelgi.
Vísbendingar má víða finna um að nú sé að eiga sér stað einhvers konar siðrof í vestrænum samfélögum, þar sem kerfisbundið er horft fram hjá hinu siðferðilega samhengi. Við þær aðstæður er orðið hættulega stutt í tómhyggju sem einkennist af andstöðu við burðarstoðir samfélagsins, afneitun siðalögmála og upphafningu efnishyggju. Þegar siðferðilegu heildarsamhengi hefur verið afneitað og stigið inn í tómhyggjuna er hægur leikur að dulbúa ofbeldi sem góðmennsku og órétt sem réttlæti.
Undrabarn sem var vart hugað líf
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.2.2023 | 14:03
Hver hugsar fyrir þig?
Gagnrýnin hugsun birtist ekki í því að boða sannleikann fyrirvaralaust heldur þvert á móti í getu til að efast um eigin afstöðu. Slíkur efi er hollur því hann fæðir af sér auðmýkt og varúð. Afkvæmi fullvissunnar geta verið öllu verri, s.s. hroki, valdbeiting og ofríki.
Við lifum nú í samfélagi sem virðist eiga bágt með að umbera efa og sýnir óþol gagnvart þeim sem voga sér að minna á að fleiri en ein hlið sé á hverju máli. Hlutverk einstaklingsins í slíku samfélagi er ekki að beita eigin vitsmunum, heldur aðeins að fylgja þeirri línu sem lögð hefur verið, m.ö.o. fylgja línu hópsins. Í stað sjálfstæðrar hugsunar er krafist hjarðhugsunar.
Mannkynssagan geymir ótal sorgleg dæmi um þær ófarir og hörmungar sem af því leiðir þegar menn gera hugmyndir sínar að kreddum og fara umgangast þær eins og heilög sannindi, sem ekki má efast um eða gagnrýna.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
21.2.2023 | 08:49
Hvað sameinar? [Birt í Morgunblaðinu 21.2.2023]
Íslendingar eru almennt vel meinandi og gott fólk. Við berum flest mikið traust til yfirvalda. Kannanir[1] benda til að við berum sérlega mikið traust til lögreglunnar, háskóla og heilbrigðiskerfisins.
Útgangspunktur fólks virðist vera að við trúum því sem okkur er sagt að trúa. En getur verið að stjórnvöld misnoti þetta trúnaðartraust? Í nafni sóttvarna var sagt að við ættum að bera grímu á leið inn á veitingastaði og þegar gengið var milli borða, en grímuna mátti taka niður meðan setið var. Á Alþingi urðu þingmenn hins vegar að sitja með grímu í þingsalnum, en máttu taka hana af sér meðan þeir töluðu í ræðustól þingsins! Orðræðan í fjölmiðlum og á þingi er iðulega í slíkum mótsagnastíl. Okkur er t.d. sagt að EES samstarfið í núverandi mynd snúist um viðskipti og feli ekki í sér fullveldisafsal.
Hver er lærdómurinn?
Þegar þetta er ritað hrannast upp rannsóknir.[2] sem benda til að bóluefnin hafi ekki verið eins örugg og yfirvöld vildu vera láta. Sömuleiðis er komið í ljós að áhrif þeirra voru mun minni en boðað var í upphafi.[3]. Falsfréttir gærdagsins geta verið viðurkenndar staðreyndir í dag.[4]. Hver er lærdómurinn af öllu þessu? Gæti hann verið sá að við ættum ekki að treysta fyrirvaralaust því sem okkur er sagt?
Aðgerðir stjórnvalda vegna kórónuveirunnar hafa valdið víðtækum samfélagslegum og einstaklingsbundnum skaða. Sumir hafa skaðast vegna sprautanna[5]. Aðrir hafa skaðast vegna aðgerða sem yfirstigu allt stjórnskipulegt meðalhóf. Aðgerðirnar skertu sjálfræði fólks og rufu líkamleg mörk sem fram að þessu höfðu verið virt, sbr. Minn líkami, mitt val.
Aðgerðirnar leiddu ekki aðeins til mismununar, heldur einnig til útskúfunar þess minnihluta sem neitaði að hlýða í blindni, gerði fyrirvara, vildi viðhafa gagnrýna, sjálfstæða hugsun, vildu ekki undirgangast sprautumeðferð af persónulegum, heilsufarslegum ástæðum.
Heilbrigt fólk var lokað inni á heimilum sínum, skipað að klæðast grímum án viðunandi vísindalegra röksemda, látið undirgangast ítrekuð, niðurlægjandi og nærgöngul próf, og sprautað án viðunandi upplýsts samþykkis. Allt var þetta gert vegna sjúkdóms sem snemma var vitað[6] að fæstum stafaði nokkur veruleg hætta af. Þetta hefði ekki gerst ef læknar hefðu rækt siðferðilegar skyldur sínar og upplýst fólk með viðunandi hætti.
Nú eru afleiðingarnar að koma fram, m.a. í hærri dánartíðni[7] en dæmi eru um í lýðveldissögunni.
Ný skýrsla fjölmiðlanefndar um upplýsingaóreiðu og skautun í íslensku samfélagi[8] bendir til að tæplega 60% þjóðarinnar beri þungan hug til andstæðinga bólusetninga. Slík ónákvæm flokkun gerir ekki greinarmun á þeim sem kunna að hafa gert fyrirvara við notkun mRNA tækni gegn kórónuveirunni og þeim sem kunna að vera andsnúnir öllum bólusetningum, en mjög ólík sjónarmið geta búið þar að baki. Með því að spyrða saman ólíka hópa með ónákvæmu orðalagi má segja að verið sé að ýta undir upplýsingaóreiðu, úlfúð og skautun í samfélagi okkar.
Hvað veldur?
Hvað sem þessu öllu líður vekur sú harða afstaða sem þarna birtist vissar áhyggjur af hugarástandi svarenda. Ekki er óeðlilegt þótt spurt sé hvort þessi svör séu hugsanlega afleiðing einhliða framsetningar og skorts á gagnrýnni umræðu hérlendis. Þetta er sérstaklega athyglisvert í ljósi þess að aðrar þjóðir, t.d. Svíar[9], virðast sýna meira umburðarlyndi. Jafnframt er áhugavert að skoða þetta með hliðsjón af nýlegri könnun í[10] Bandaríkjunum sem bendir til að 48% fólks þar í landi telji réttmætt að hafa áhyggjur af bóluefnum og 28% aðspurðra kváðust þekkja einhvern sem hefði skaðast af þeirra völdum. Á sama tíma hefur landlæknir í Florida gefið út viðvörun vegna þess að tilkynntum aukaverkunum hafi fjölgað um 1700% síðan[11] farið var að sprauta fólk með lyfjum vegna kórónuveirunnar.
Lokaorð
Hvernig væri að spyrja næst um persónulegt gildismat, styrkleika, á hvað fólk trúir, hvað það elskar mest eða hvað fólki líkar best við í fari annarra? Þetta eru grundvallarspurningar sem fróðlegt væri að fá svör við. Við höfum meira gagn af því að vita hvað sameinar okkur en hvað greinir okkur í sundur.
Heimildir:
[1]https://www.gallup.is/nidurstodur/thjodarpuls/traust-til-stofnana/
[2] Sjá t.d. https://jamanetwork.com/journals/jamanetworkopen/fullarticle/2793348
[3] https://www.cell.com/cell-host-microbe/fulltext/S1931-3128(22)00572-8
[4] https://www.thelancet.com/journals/lancet/article/PIIS0140-6736(22)02465-5/fulltext
[5] https://www.sciencedirect.com/science/article/pii/S0264410X22010283
[6] http://biomechanics.stanford.edu/me233_20/reading/ioannidis20.pdf?fbclid=IwAR0eksLi6cqbHp9KV0yv9WKM8W27xcXFzWJ77FavMb6uFW6b5Sesfej4jfg
[7] https://www.mbl.is/frettir/innlent/2023/02/20/umframdaudsfoll_hvergi_meiri_en_a_islandi
[8] https://fjolmidlanefnd.is/2023/02/16/ny-skyrsla-upplysingaoreida-og-skautun-i-islensku-samfelagi
[9] Sama heimild.
[10] https://www.rasmussenreports.com/public_content/politics/public_surveys/died_suddenly_more_than_1_in_4_think_someone_they_know_died_from_covid_19_vaccines
[11] https://twitter.com/FLSurgeonGen/status/1626267180617682944
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.2.2023 | 18:18
Hvert stefnir stofnanaveldið?
Á ríkið að ráða því hvað má segja og hvað ekki, hvað má ræða og hvað ekki, um hvað má efast og hvað ekki, hvað má gagnrýna og hvað ekki? Sá sem svarar slíkum spurningum játandi er í raun að lýsa stuðningi við stofnun Sannleiksráðuneytis í anda 1984 eftir Orwell. Við hin, sem svörum þessum spurningum neitandi, verðum að horfast í augu við greinilega öfugþróun í þessum efnum, sem birtist nánast daglega í fréttum, nú síðast í fréttum af þöggunartilburðum Ferðamálastofu.
Í frjálsu samfélagi má hver sem er tjá skoðanir sínar gagnvart hverjum sem heyra vill. Þetta þýðir ekki að fólki leyfist að beita stofnanavaldi / ríkisvaldi til að þvinga skoðanir sínar upp á aðra, banna öðrum að tjá sig, svipta fólk atvinnu, vega að einstaklingum eða reyna að stýra umræðu.
Í frjálslyndu réttarríki hljótum við að ganga út frá þeirri meginreglu að jafnvel þótt fólk telji sig hafa höndlað allan sannleikann, þá leyfist viðkomandi ekki að þvinga þá sýn / skoðun / trú upp á aðra. Þetta þýðir í framkvæmd að þú mátt aðhyllast hvaða sjónarmið sem er og innan marka laga máttu bjóða fólki að velja eða hafna því sem þú hefur fram að færa.
Meðan við viljum lifa í frjálsu samfélagi ber okkur í lengstu lög að verja rétt annarra til að hafa frjálst val og til að fylgja samvisku sinni. Í frjálsu samfélagi þvingum við ekki skoðanir upp á aðra. Þú mátt trúa því sem þú vilt, en á móti kemur að þú þarft að leyfa öðrum að trúa því sem þau velja að trúa.
Í ríki sem kennir sig við frjálslynt lýðræði hefur enginn einn maður, enginn hópur og engin stofnun vald til að ákveða hvaða skoðanir okkur leyfist að hafa. Slíkt stjórnarfar er kennt við einveldi, klerkaveldi eða alræði. En meðan enginn hreyfir andmælum þokumst við í átt til slíkra stjórnskipulegra ófara.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
6.2.2023 | 12:12
Ofríki í nafni velferðar
Í velferðarríkinu Danmörku er nú rætt um valdmörk ríkisins, nánar tiltekið um hugsanlegt ofríki velferðarkerfisins gagnvart almennum borgurum. Hversu langt leyfist ríkinu að ganga inn á svið einkalífs? Hver eru mörkin t.d. í tilviki foreldra og fjölskyldulífs? Þessi grein sem birtist í Berlingske föstudaginn 3.2. sl. fjallar um vísbendingar þess efnis að ríkisvaldið sé tekið að seilast full langt í frelsisskerðingum / stýringu gagnvart einstaklingum í nafni verndar. Þetta birtist m.a. í aðgerðum gegn sjúkdómum, hegðun barna, misjöfnum aðstæðum fjölskyldna o.fl.
Ef menn hleypa valdhöfum ofan í hálsmálið á sér er ekki víst að það tryggi öryggi almennings í bráð og lengd. Fórnarkostnaðurinn er þá ekki bara skert frelsi, heldur er í reynd verið að má út mikilvæg öryggismörk. Dæmin sanna að persónuleg friðhelgi, vernd einkalífs o.fl. hverfa í skuggann þegar Stóri bróðir gerist of nærgöngull.
Í alræðisríkjum hefur frelsinu verið fórnað í skiptum fyrir öryggi. Það sem verra er: Í stað öryggis sitja menn uppi með óöryggi og lifa í ótta við stjórnvöld. Öll lagaleg vernd borgaranna hverfur þá út um gluggann. Réttarríkið umbreytist í innantóma skel þar sem mönnum er daglega mismunað á grundvelli laga. Undir merkjum umhyggju / verndar / velferðar / öryggis beita valdhafar borgarana ofríki og brjóta þar með samfélagssáttmálann sem völd þeirra byggja á. Í slíkum ríkjum verða skýr mannréttindaákvæði haldlaus í framkvæmd. Réttaröryggi hverfur sjónum. Eftir stendur aðeins falskt öryggi. Vegferðin sem hófst undir merkjum öryggis endar þá í öryggisleysi. Ef menn standa ekki á bremsunni getur velferðarkerfið hæglega orðið að tæki í höndum ofríkismanna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)