Raunveruleikinn knýr dyra.

Stjórnmálaflokkar á Íslandi hafa breyst í ríkisstofnanir eftir að þeir voru settir á fjárlög. Flokkar sem eru reknir af ríkissjóði geta leyft sér að vanrækja grasrótarstarf og málefnavinnu. Þess í stað er látið nægja að fara af stað nokkrum vikum fyrir kosningar með hástemmd (og dýr) kosningaloforð. Í slíku umhverfi er ekkert skrýtið þótt sífellt fleiri Íslendingar missi áhuga á stjórnmálum, vantreysti stjórnmálaflokkum og jafnvel fyrirlíti stjórnmálamenn. 

Tengslarof á sér stað þegar stjórnmálamenn gleyma meginhlutverki sínu, sem er að þjóna íbúum landsins, tryggja öryggi og koma í veg fyrir upplausn, halda uppi lögum og verja þá sem veikast standa gegn hvers kyns ofríki. 

Meðan fólkið í landinu hirðir ekkert um stjórnmál getur tilvera stjórnmálamanna farið að snúast um annað en þessi kjarnaatriði. Þá geta menn hæglega gleymt sér við að sinna gæluverkefnum. En þegar gæluverkefnin fara að hafa neikvæð áhrif á daglegt líf borgaranna er ekki víst að fólk láti það yfir sig ganga til lengdar.

Þegar raunveruleikinn knýr dyra getur það haft óþægilegar afleiðingar fyrir stjórnmálamenn sem vilja iðka stjórnmál í einhvers konar lokuðum hliðarveruleika. Þegar venjulegt fólk fær nóg getur orðið landskjálfti eins og sá sem virðist hafa orðið í þingkosningum í Hollandi í gær, þar sem andófsflokkur bænda varð ótvíræður sigurvegari. Flokkurinn er afsprengi sterkrar mótmælaöldu sem bændur hafa leitt þar í landi. Yfirgangur hollenskra stjórnvalda gagnvart bændum / þjónkun stjórnvalda við stórar samsteypur í landbúnaði hefur fætt af sér það sem kalla mætti stórpólitísk tíðindi. Þessar niðurstöður eru viðvörunarmerki til þeirra stjórnmálamanna / stjórnmálaflokka sem hafa misst sjónar á hlutverki sínu, glatað tengslum við kjósendur og misst samband við daglegt líf fólksins í landinu.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband