Andvaraleysi er ekkert grín.

,,Ef Íslendingar vilja vera sjálfstæð þjóð verðum við að taka ábyrgð á okkur sjálfum. Í því felst að við þurfum að hafa kjark til að marka okkar eigin stefnu, í stað þess að taka stöðugt við fyrirmælum að utan frá stofnunum sem enginn hefur kosið til slíkra valda og svara ekki til neinnar ábyrgðar gagnvart Íslendingum. Ef þetta samband milli kjósenda og valdsins er rofið er vart annars að vænta en að Íslendingar muni fyrr en síðar gjalda þess á eigin skinni. Þetta verða allir að skilja, sérstaklega þó þeir sem sækjast eftir því að starfa á vettvangi íslenskra stjórnmála".

Framangreind orð birti ég á prenti í nóvember 2020. Hefur raunveruleikatenging íslenskra stjórnmála batnað síðan þá? Dæmi nú hver fyrir sig. 

Á bls. 10 í Mogganum í dag bendir Baldur Þórhallsson, prófessor við HÍ, m.a. á að Íslendingar hafi útvistað stefnumótun í öryggis- og varnarmálum. Hann gagnrýnir, réttilega, að allri stefnumótun á þessu sviði sé ,,bara hent í fangið á okkar bandamönnum". 

Baldur nefnir einnig við Íslendingar hafi "að mjög takmörkuðu leyti komið að því að ákveða hvers konar varnir eiga að vera hér til staðar". 

Þessi þarfa umræða um varnarmál kemur upp á sama tíma og íslensk yfirvöld eru á hröðum flótta undan því að viðurkenna döngunararleysi sitt gagnvart ESB. Algjör viðnámsskortur íslenskra stjórnvalda hefur leitt til þess að við höfum nú í 30 ár verið í áskrift að erlendum lagareglum sem streyma hingað í gegnum athugasemdalaust einstefnukerfi umræðulausrar innleiðingar ESB reglna.

Ef menn vilja láta kjósa sig til að fara með völd ber þeim að axla ábyrgð gagnvart þjóðinni. Í því felst að menn eiga ekki aðeins að slökkva þá elda sem loga, heldur einnig að fyrirbyggja hættur. 

Í breyttum heimi er Ísland í aukinni hættu. Frammi fyrir þeirri stöðu leyfist valdamönnum ekki að spila á fiðlu og framselja ábyrgðina í hendur sérfræðinga í erlendum borgum.

 

 


mbl.is Skýra þarf varnir Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áhrifaleysi Íslands blasir við og kallar á gagnrýna umræðu.

Fyrir mörgum árum átti ég samtal við háttsettan lögfræðing hjá ESB. Þegar talið barst að EES sagðist hann "nota samninginn daglega á skrifstofunni ... sem hurðarstoppara (e. doorstop)." 

Áhugaleysið á EES sem skein í gegnum grínið birtist daglega í samskiptum Íslands við ESB. En þegar það birtist í lítilsvirðingu gagnvart mikilvægum hagsmunum Íslands, sbr. þessa frétt, þurfum við að staldra við og endurmeta stöðuna. 

Eins og mál hafa þróast blasir við að sjálfsákvörðunarrétti okkar (fullveldi Íslands) er ógnað með þeirri einstefnu lagareglna sem ESB vill að gildi í framkvæmd EES samningsins. 

Alþekkt er að stofnanir ESB rökstyðja forgang ESB-réttar með skírskotun til þess að samninga skuli halda (lat. Pacta sunt servanda). Ekkert hefur komið fram um hvers vegna Íslendingar ættu ekki að njóta réttar samkvæmt þessari ævagömlu meginreglu samningaréttar.

Sú staðreynd að smáþjóðin Ísland hafi aldrei tekið þann kost að láta reyna á samningsbundnar heimildir sínar til hagsmunagæslu er vart merki um „jafnræði“ svonefnds „Tveggja stoða kerfis“ EFTA og ESB í EES-samningnum.

Um þetta hef ég áður fjallað í víðara samhengi. Menn þurfa ekki að vera lögfræðingar til að skilja alvarleika málsins. 

Út frá sjónarmiðum um lýðræði, fullveldi og valddreifingu blasir við að innleiðingarferli erlendra reglna getur ekki og má ekki vera hömlulaust.  

 

 

 

 

 

 

  


mbl.is Stærsta hagsmunamál Íslands frá upptöku EES
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru Bretar að vakna?

Offita er alvarlegt vandamál bæði hér og erlendis. Því er nú spáð að þessi vandi muni aukast en ekki minnka á næstu árum. Af þessu má álykta að almenningur hljóti að innbyrða óhollt fæði og skorta næga hreyfingu. Mögulega er það efni í annan pistil.

En hvað með hið vitsmunalega svið? Má af atburðarás síðustu ára draga þá ályktun að almenningur sætti sig við einhliða og næringarsnautt fóður, sem stórir fréttamiðlar heimsins - og ríkisfjölmiðlar, buna yfir fólk alla daga?

Ef eitthvað er að marka pistlahöfunda Daily Telegraph, SpectatorSpiked o.fl. í Bretlandi og víðar, þá er þetta síðastnefnda hluti skýringarinnar á því mótstöðu- og gagnrýnisleysi sem einkenndi hina ískyggilegu umpólun stjórnarfars síðustu ára, þar sem hefðbundnum og stjórnarskrárvörðum viðmiðum um samskipti ríkis og borgara var kastað á glæ.

Viltu búa í réttarríki eða sóttvarnaríki? 

Í réttarríki telst fólk saklaust þar til sekt er sönnuð. Í sóttvarnaríkinu taldist fólk sekt (sýkt) þar til sakleysi var sannað. Í réttarríki er friðhelgi einkalífs virt af yfirvöldum. Í sóttvarnaríkinu er friðhelgin rofin undir yfirskini öryggis. Í réttarríkinu þjónar lögreglan almenningi. Í sóttvarnaríkinu þjónar hún stjórnvöldum. Í frjálslyndu réttaríki þjóna fjölmiðlar því hlutverki að bregða birtu á mál frá sem flestum sjónarhólum. Í sóttvarnaríkinu urðu fjölmiðlar rödd stjórnvalda. Í lýðræðisríki er tjáningarfrelsið varið sem grundvöllur frjálsra skoðanaskipta. Í sóttvarnaríkinu er ritskoðun beitt til að þagga niður í þeim sem hafa efasemdir um stefnu stjórnvalda. 

Vindarnir eru að snúast

Fyrir þá sem enn kjósa að vera á óhollu hugarfóðri, þá leyfi mér að benda á áframhaldandi umfjöllun Daily Telegraph um samskipti ráðamanna í Bretlandi í kófinu. Sá fréttaflutningur birtir æ ljótari mynd. Meginumfjöllunarefnið í dag er sálfræðihernaðurinn og óttastjórnunin sem beitt var af hálfu yfirvalda. Ef marka má viðbrögð breskra lesenda eru vindar að snúast - og það mjög kröftuglega á Bretlandseyjum. Sagan sýnir að vindátt þar hefur áhrif á íslenska hugsun og umræðu. Fólk er að átta sig á að athafnir stjórnvalda snerust mögulega meira um pólitík en vísindi. Í því birtist trúnaðarbrestur við borgarana.

Hreinskilin umræða er besta leiðin til að finna sátt 

Breskur almenningur finnur nú til vonbrigða og reiði. Í Íslandi eru ekki enn farnar að renna tvær grímur á meginþorra fólks, en gera má ráð fyrir að sú stund nálgist. Til að aftra þvi að vonbrigði, óánægja og reiði almennings finni sér óæskilegan farveg ofbeldis í orðum og gjörðum þá þurfum við að geta rætt það sem gerðist af yfirvegun, hreinskilni og með málefnalegum hætti.

Munu íslenskir fjölmiðlar, sem flestir ýttu undir valdboðið og óttann, leggja sitt lóð á vogarskálar heiðarlegs uppgjörs eða verður reynt að fegra og réttlæta allt sem gert var í nafni sóttvarna? 

 

 

 


Koma þarf umræðunni upp á hærra plan

Þegar við byggjum hús viljum við að það standi á traustum stoðum. Svo þarf að hugsa vel um þessar stoðir til að þær fúni ekki og veikist. Sinnum við vel slíkri umhirðu um grunnstoðir lýðveldisins okkar?

Í Morgunblaðinu í dag kallar Arnór Sigurjónsson, fyrrv. skrifstofustjóri varnarmálaskrifstofu, eftir agaðri umræðu um öryggis- og varnarmál. Hann segir alla umræðu um þessi mál úti í skurði og að hún einkennist af þekkingarleysi og tilfinningum. Undir þetta hljóta flestir að geta tekið. Á stuttum tíma hefur öryggisástandið í heiminum gjörbreyst. Valdajafnvægi er að riðlast og staða Íslands er ótryggari en áður. Við þessar aðstæður leyfist kjörnum fulltrúum okkar ekki að sýna þessum málaflokki áhugaleysi. 

En meðan eldarnir loga allt í kringum okkur kjósa Alþingismenn að ræða aukaatriði fremur en aðalatriði. Alþingi, sem á að heita ein af grunnstoðum lýðveldisins, hefur verið gert of léttvægt og hversdagslegt. Búið er að útvista stórum hluta verkefnanna til Brussel en þingmenn halda þó óbreyttum launum.

Ábending Arnórs Sigurjónssonar er rétt. Taka þarf öryggis- og varnarmál Íslands til gagngerrar endurskoðunar í ljósi breyttra aðstæðna. Samhliða þurfa þingmenn að láta af gífuryrðum, innihaldslausum upphrópunum, skoðanahroka og tilgangslausu málþófi. Auk varnarmála þarf svo að ræða af aukinni ábyrgð um orkumál, veika stöðu lýðræðisins, útbreitt ólæsi, vaxandi heilsufarsvanda o.fl. Til lengri tíma er viðfangsefnið að blása lífi hið frjálsa hagkerfi þannig að það geti staðið undir því að verja grunnstoðir samfélagsins. Það best gert með því að hver og einn geti nýtt hæfileika sína, sjálfum sér og fjölskyldu sinni til góðs og samfélaginu til heilla.

 


Hver stendur vörð um frelsi þitt ef þú nennir því ekki?

Gögnin sem Daily Telegraph birti í fyrradag varpa ljósi á atvik sem stjórnvöld í Bretlandi hefðu vafalaust fremur kosið að yrðu áfram hulin myrkri. Líta má á þessar upplýsingar sem skólabókardæmi um það hvað gerist þegar almenningur lamast af ótta, þingræðið tekið úr sambandi og ríkisstjórn eru falin öll völd í nafni neyðarástands.

Gögnin afhjúpa hvernig daglegt líf manna færist við þessar aðstæður frá lögstjórn yfir í einhvers konar geðþóttastjórn, þar sem hrammur lögreglu og ríkisvalds er lagður á almenning ... ,,til að vernda almenning". 

Mannkynssagan geymir mörg dæmi um það að slíkt stjórnarfar er ávísun á spillingu, leyndarhyggju, mismunun og misbeitingu valds. Vítin eru til að varast þau.

Lærdómurinn er sá að menn þurfa að standa stöðugan vörð um frelsi sitt. Ef við erum ekki tilbúin til að greiða það gjald með því að haga okkur eins og menn (hugsa sjálfstætt, tjá okkur og veita aðhald) þá getum við ekki kvartað þegar stjórnvöld koma fram við okkur eins og húsdýr (með því að stýra allri hegðun, smala okkur í hjarðir og hóta valdbeitingu).

Valið er okkar. Ennþá.   

 

 


Hylja hvítu slopparnir ekki lengur nektina?

Stóra fréttamálið í Bretlandi síðan í gærdag er innihald um 100.000 skilaboða sem fóru á milli ráðherra í ríkisstjórn Bretlands eftir að ,,veiran skæða" kom fram á sjónarsviðið.

Fréttir af þessum samskiptum munu birtast í Daily Telegraph á næstu dögum. Eftirskjálftarnir gætu orðið víðtækir og langvarandi. Í stuttu máli afhjúpa umrædd skilaboð það hversu veikum fótum lýðræðið stendur, ekki bara í Bretlandi, heldur í öllum þeim rikjum sem stýrðu eftir sama kompás taugaveiklunar, vanhæfni, sýndarmennsku o.fl. Dæmi: Gögnin eru til marks um að yfirvöld hafi sett reglur sem þau vissu að myndu valda miklum skaða, t.d. að banna bannað fólki að heimsækja deyjandi ættingja á sjúkrahúsum og elliheimilum, án þess að vita hvort það veitti nokkra vernd. Áhersla stjórnvalda í Bretlandi var samkvæmt þessu lögð á að ,,gera eitthvað" til að þurfa ekki að sitja undir ásökunum um aðgerðarleysi.

Hlutverk fjölmiðla er að upplýsa og ræða, ekki að breiða yfir og þagga

Fjölmiðlar hafa mikilvægu hlutverki að gegna í umfjöllun um mál af þessari stærðargráðu. Hlutverk þeirra er að upplýsa almenning og veita valdhöfum nauðsynlegt aðhald, t.d. með að spyrja hvaða mat á kostnaði og ábata lá að baki ákvörðunum sem snertu atvinnulíf, menntun, friðhelgi einkalífs o.fl. Hver sem les þau samskipti sem hér um ræðir hlýtur að svitna við þá tilhugsun að sambærilegt ,,verklag" verði viðhaft þegar ,,næsti heimsfaraldur" skellur á. 

Hlutverk vísindamanna er að leita sannleikans, ekki að þykjast vera holdgervingar sannleikans

Á sama tíma og allar þessar upplýsingar birtast um pínlegt ráðaleysi æðstu ráðamanna eru vindar að snúast í vísindaheiminum. Margt það sem þóttu heilög sannindi árið 2020 er nú að umbreytast í ,,falsfréttir" og ,,upplýsingaóreiðu". Dæmi: Bóluefni veita ekki betri vörn en náttúrulegt ónæmi; grímunotkun hafði engin tölfræðilega marktæk áhrif á útbreiðslu veirunnar; hjartavöðvabólga meðal ungra karlmanna er algengari eftir bóluefnasprautur, en eftir covid-smit. 

Frammi fyrir öllum þessum nýju upplýsingum vakna fjölmargar spurningar: Er hugsanlegt að það hafi verið yfirvöld sjálf sem ollu mestu upplýsingaóreiðunni í kófinu? Hvers vegna voru réttar upplýsingar úthrópaðar sem falsfréttir en ósannindi sett á stall sem sannleikur? Hversu margt af þessu skrifast á einföld mistök og hversu margt var aðeins (hræðslu)áróður til að framkalla hlýðni borgaranna? 

Hlutverk valdhafa er að verja málfrelsið, ekki skerða það

Íslenskir fjölmiðlar og íslenskir stjórnmálamenn þurfa að leita svara við öllum þessum spurningum. Besta leiðin til þess er þó augljóslega ekki sú að þenja út eftirlitsbáknið og ýta undir ritskoðunar- og þöggunartilburði með því að styrkja fjölmiðlanefnd ,,til að takast á við falsfréttir á netinu".

Ef menn áttu enn erfitt með að skilja mikilvægi málfrelsis í síðustu viku þá ættu atburðir og afhjúpanir síðustu daga að vera til áminningar um að mannkynssagan fer ekki mjúkum höndum um þá sem vilja beita opinberu valdi til að skilgreina sannleikann.   

[Uppfærsla: Við athugun kl. 19.10 2. mars 2023 verður ekki séð að nokkur einasti fjölmiðill á Íslandi geri þessari bresku uppljóstrun nokkur skil.]

 

 

 

 

 

 


Þegar rykið sest ...

Þegar rykið hefur sest munu yfirvegaðir fræðimenn, læknar og blaðamenn fara yfir viðbrögð stjórnvalda í „kófinu“. Þá, en ekki fyrr, mun fara fram heiðarlegt uppgjör á því hvernig öllum fyrri viðbragðsáætlunum var hent út um gluggann í skiptum fyrir tölvugerð reiknilíkön, sem byggðu á ótraustum læknisfræðilegum grunni og tóku ekki tillit til rannsóknarniðurstaðna sem strax um vorið 2020 bentu til að veiran væri orðin mjög útbreidd og að stór hluti almennings hefði þegar myndað mótefni. Þessar niðurstöður hefðu mátt segja mönnum að harðar viðbragðsaðgerðir væru óþarfar og óvænlegar til nokkurs árangurs. Þegar á vormánuðum 2020 mátti mönnum sem sagt vera orðið ljóst að „veiran skæða“ hafði dreifst út um allt og var aðeins hættuleg tilteknum hópi sem þurfti að verja á meðan atvinnulíf og almennt mannlíf hélt áfram. Nei, þess í stað var byggt á grunnfærnislegum ályktunum þess efnis að allir væru jafn viðkvæmir fyrir veirunni. Á þeim falska grunni voru gefnar út ógnvekjandi spár um gífurleg dauðsföll, sem svo raungerðust hvergi í heiminum, m.a.s. ekki ríkjum sem héldu samfélaginu opnu, svo sem í Svíþjóð. Yfirvöld lýstu yfir stríði gegn ósýnilegum óvin og beittu hræðsluáróðri til að samræma hegðun og þagga niður í efasemdaröddum. 450 milljarðar króna fóru í „mótvægisaðgerðir“ og dæmi eru um að fólk sé enn í sjálfskipaðri einangrun eftir þrjú ár. 

Þrátt fyrir þessar alvarlegu fréttir og þótt falsfréttir gærdagsins séu taldar trúverðugar nú, er enn verið að berja niður gagnrýnisraddir og þagga niður í þeim sem efast um gæði þeirra lyfja sem dælt var í alla, m.a.s. að óþörfu í ungt og heilsuhraust fólk. Þegar þetta er ritað líður vart sá dagur að ekki birtist nýjar rannsóknir, m.a. þessi 300.000 manna rannsókn hér sem gefur hrollvekjandi vísbendingu um að mRNA sprauturnar kunni að hafa valdið milljónum manna alvarlegu heilsutjóni um allan heim.

Þótt Íslendingar eigi mögulega flesta lögfræðinga miðað við höfðatölu andmæltu fáir þeirra þegar stjórnarskrárákvæðum um borgaralegt frelsi og mannréttindi var kippt úr sambandi. Þegar horft er yfir atburðarás síðustu þriggja ára birtist mynd, sem í raun má kenna við lýðræðishrun. Þingræði var í reynd afnumið og opinbert vald afhent sérfræðingum í allt of ríkum mæli, án viðunandi valdtemprunar og aðhalds.

Í fyllingu tímans þarf að eiga sér stað ærlegt samtal, þar sem leyft verður að ræða málið út frá fleiri hlið en hinni einu, réttu, opinberu línu. Þetta mál, eins og önnur hefur fleiri en eina hlið og fleiri en tvær. Í þroskuðu samfélagi er viðurkennt að öll mál hafa í raun a.m.k. 6 hliðar: Framhlið og bakhlið, undir og yfir, hægri hlið og vinstri hlið.

Ef við sem þjóð drögum ekki viðeigandi lærdóm af þessari óvísindalegu nálgun yfirvalda gætum við séð sams konar atlögu að samfélagsgerðinni endurtaka sig fyrr en varir – og yfirvöld munu þá jafnvel ganga enn lengra í valdbeitingu, þ.e. ef nýtt frumvarp til sóttvarnalaga nær fram að ganga í óbreyttri mynd.

 

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband