Um merkimiðapólitík (e. identity politics)

Er það ekki örugglega rétt skilið að við Íslendingar viljum ,,fagna fjölbreytileikanum"? En hvað felst í þessu? Snýst þetta mögulega meira um ásýnd en innihald? Ég spyr því áherslan á ,,fjölbreytileikann" virðist í framkvæmd ala af sér kröfu um fábreytileika í hugsun. Stöndum við hér frammi fyrir kreddu sem lamar vitræna umræðu í stað þess að styrkja hana? 

Mannkynssagan geymir mörg dæmi um það hvernig aðskilnaðarstefnu hefur verið beitt til að skilja á milli trúarhópa, kynþátta o.s.frv. Á okkar tímum eru dregnar stöðugt skarpari aðgreiningarlínur milli fólks á grundvelli skoðana. Í þessu andrúmslofti sjáum við fólk leita skjóls í hópi með öðrum og kasta þaðan grjóti í þá sem standa utan hópsins.

Herskáir leiðtogar gera kröfu um hollustu liðsmanna. Sá sem vill tilheyra hópnum þarf að sýna hollustu sína í orðum og verki. Á móti kemur að viðkomandi getur notað stefnuskrána / kredduna til að leysa sjálfan sig úr höftum eigin samvisku, þagga niður í innri efasemdum og víkja sér undan persónulegri gagnrýni. Með fögrum orðum býðst veiklunduðu fólki skjól í kreddunni og öryggi í hópnum. Í þeim jarðvegi má reyna að rækta sjálfsmynd, sem þó verður aldrei sönn og persónuleg. Fölsk sjálfsmynd kallar á dyggðaskreytingu (e. virtue signalling) til að sanna sig inn á við og út á við. Þegar hlutverkaleikurinn hefur náð því stigi, þ.e. þegar menn eru farnir að halda að þeir séu gríman sem þeir fela sig á bak við, þá umbreytist allt lífið í leikhús (fáránleikans). Sönn tjáskipti verða æ sjaldgæfari. Einlægni og trúnaður hverfa af sviðinu. Eftir standa gervipersónur í samkeppni um að yfirtaka sviðið (,,stela senunni"). 

Hefðbundin trúarbrögð geyma sterkan þráð sem vara við sjálfsréttlætingu, þ.e. að menn ímyndi sér að þeir séu betri en aðrir. Hugmyndafræðilegar kreddur nútímans hvetja til sjálfsupphafningar: Meðlimir ,,okkar hóps" eru réttlátari en aðrir og hafa því fullt leyfi til að dæma aðra. Kreddan er þá orðin að kylfu sem notuð er til reyna að berja aðra til hlýðni. 

Innan sérhvers hóps er nefnilega ætlast til þess að allir hugsi eins. Kreddan er þá orðin hluti af sjálfsmyndinni. Þeir sem gerast sekir um hugsanavillur / hugsanaglæpi eru útskúfaðir. 

Þetta er vítahringur sem kæfir niður frjálsa sannleiksleit og gagnrýna hugsun. Slíkur vítahringur verður ekki rofinn nema með því að menn þori að vera þeir sjálfir. Hlýða sinni eigin samvisku. Beita sinni eigin dómgreind. Tala sinni eigin röddu.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband