Sá sem vill hafa vit fyrir öðrum þarf að vera aflögufær um vit.

Ríkisvaldi var komið á fót til að þjóna okkur, ekki til að drottna yfir okkur. Þetta ættu Íslendingar að muna af virðingu við þá sem fyrst numu hér land til að geta lifað í frelsi frá þrúgandi miðstýrðu valdi. 

Daglega sjáum við og finnum hvernig þrengt er að frelsi okkar, sjálfsákvörðunarrétti, eignarétti o.fl. Hér á þessum vettvangi hef ég síðustu daga dregið upp mynd af því hvernig sótt er að hagsmunum okkar, bæði lóðrétt og láréttLárétta pressan kemur frá flokkum, félögum og einstaklingum sem vilja að við gerum eins og þau segja (göngum í takt). Lóðrétta pressan kemur frá ríkisvaldi og yfirþjóðlegum stofnunum sem telja sig hafa rétt og jafnvel skyldu til að ,,hafa vit fyrir" okkur.

Um þessa viðleitni sagði Guðmundur Jóhann Sigurðsson eftirfarandi orð í ,,kjallaragrein" í DV 26. maí 1988 eftir að Alþingi hafði ákveðið að ,,leyfa sölu áfengs bjórs". Ég gef Guðmundi Sigurði orðið því þetta eru gullmolar sem skína best sjálfstætt:  

  • ,,[...] þar kom nú loks, að vilji meirihlutans náði fram að ganga þrátt fyrir að fámennur öfgahópur afturhaldssamra sérviskuþursa reri að því öllum árum að ,,haft yrði vit fyrir" almenningi í þessum efnum hér eftir sem hingað til"
  • ,,Það má teljast dæmafár hroki og ósvífni af fólki, sem á að heita heilvita, að telja sig þess umkomið ,,að hafa vit fyrir" fullorðnum lögráða meðbróður sínum í þeim sökum hvaða neysluvörur hann lætur inn fyrir sínar varir. Er það mála sannast, að flestir þeir menn sem hvað áfjáðastir eru í að ,,hafa vit fyrir" öðrum eru lítt eða ekki aflögufærir um vit". [Leturbr. AÞJ]

Ef Guðmundur Sigurður heitinn vissi að beturvitaháttur þessa sama fólks er nú kominn á það stig að þau vilji stýra því hvaða orð við látum út fyrir okkar varir, þá myndi hann vafalaust snúa sér við í gröfinni. 

Hugmyndir stjórnvalda um hatursorðræðu, ritskoðun og eftirlit með fullorðnu fólki ættu að vera eitur í beinum allra þeirra sem unna frelsi sínu og annarra til orðs og athafna. 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband