Treystum dómgreind almennings.

Hvort ætli sé meiri ógn við lýðræði og mannréttindi: Skautun í umræðunni eða ritskoðun og þöggun? Í umræðum um ,,aðgerðaáætlun gegn hatursorðræðu" á Alþingi 8. mars sl. virtist forsætisráðherra hafa meiri áhyggjur af því fyrrnefnda. Af þeirri ástæðu vill hún leggja höft á tjáningu landsmanna og senda okkur á námskeið til að við lærum að hugsa ,,rétt" og tala ,,rétt". Forsætisráðherra gleymir að tjáningarfrelsið er súrefni lýðræðisins og að mannréttindi verða ekki varin án þess.

Frá stofnun Sjálfstæðisflokksins hefur honum verið ætlað að standa vörð um frelsi fólks til orðs og athafna. Hvar voru þingmenn Sjálfstæðisflokks í umræðunum 8.3. sl.? Ber fjarvera þeirra vott um óheilbrigt ástand lýðræðis okkar? Hafa stjórnarflokkarnir þrír runnið saman í vanheilagt bandalag þannig að við stöndum nú frammi fyrir óhollri samsuðu, þar sem umræða um grundvallarmál er drepin niður, þar sem pólitískar málamiðlanir eru teknar fram yfir hagsmuni almennings og þar sem skammtímahagsmunir yfirtrompa pólitísk prinsipp? 

Hér á þessum stað vitnaði ég í gær til Guðmundar Sigurðar Jóhannssonar, sem kunni vel þá list að koma fyrir sig orði. Hann var á móti því að stjórnmálamenn og embættismenn reyndu að hafa vit fyrir fullorðnu fólki og hvatti fólk til að láta af slíkum ,,bróðurgæslukomplexum" og ,,brunnbyrgingaþrugli". Er ekki affarasælast að hver og einn taki ábyrgð á orðum sínum og gjörðum, hér eftir sem hingað til?

Tjáning með orðum er það mannlegasta af öllu. Ríkið á ekki að þrengja sér inn á það svið með það fyrir augum að stýra, hefta og þagga. Ef hver og einn á samtal við sjálfan sig og leggur sig fram um að tala fallega um og til annarra hlýtur það að vera betri leið að bættum samskiptum.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband