Í samfélagi þar sem allir hugsa eins, þar hugsar enginn

Ég ,,mismælti" mig hér í færslu 25.3. sl. þegar ég vísaði til þess að hjörð hugsi. Réttara hefði verið að segja sem er: Hjörðin trampar og traðkar, en hugsar alls ekki. Hjörð getur ekki hugsað, heldur aðeins einstaklingarnir innan hjarðarinnar. Þegar allir eru farnir að vísa til álits annarra, þá hugsar enginn lengur sjálfstætt. 

Lýðræðislegt stjórnarfar deyr ef enginn hugsar sjálfstætt

Hvernig má þekkja mun á þeim sem a)hugsar sjálfur og þeim sem b)láta aðra hugsa fyrir sig? Sá sem hugsar sjálfur leitast við að byggja afstöðu sína á fyrirliggjandi staðreyndum. Sá sem lætur aðra forrita á sér heilann og talar út frá handriti sem aðrir semja gerir sjálfan sig að ,,skoðanaþega". Sá sem lætur berast með hugsunarlaust með straumnum gerir samfélagi sínu engan greiða. Þvert á móti bregst hann lýðræðislegri skyldu sinni til sjálfstæðrar skoðanamyndunar. 

Kreddustjórnmál eru viðkvæm fyrir gagnrýni

Ef það er rétt að við búum nú í samfélagi þar sem fáir hugsa, er staðan sú að stærstur hluti fólks hefur fengið skoðanir sínar að láni. Þetta sama fólk getur hafa sannfært sig um að þau hafi rétt fyrir sér og að skoðun þeirra sé siðferðilega góð, vísindaleg eða rétt. En ef afstaðan stenst enga skoðun, þolir ekki gagnrýni og brotnar þegar hún mætir raunveruleikanum þá er skýringin líklegast sú að hún byggir á huglægum en ekki hlutlægum veruleika.

Ýmsum ráðum má beita til að koma í veg fyrir að veikleikar kreddunnar afhjúpist. Efasemdir má stimpla sem ,,upplýsingaóreiðu", óþægileg sjónarhorn má stimpla sem ,,falsfréttir", gagnrýni má stimpla sem ,,samsæriskenningar", óþægilegar staðhæfingar má stimpla sem ,,hatursorðræðu". [Innskot: Þetta eru aðeins dæmi, ekki réttlæting höfundar á illyrðum, útúrsnúningum eða hatri sem því miður má víða finna].   

Mögulega skýrir þetta þróun mála sl. ár, þar sem

  • opinberar stofnanir freista þess að stýra umræðunni með því að fá almenning og blaðamenn til sjálfs-ritskoðunar (sjá t.d. ,,Árvekni-átak" Fjölmiðlanefndar 2021),
  • tilhneigingu gætir í þá átt að gera alla fjölmiðla landsins háða ríkisvaldinu (með opinberum fjárveitingum),
  • samfélagsmiðlar sýna þöggunar- og ritskoðunartilburði,
  • slaufunar- og útilokunarmenning ríkir,
  • fjölmiðlar sýna andvaraleysi gagnvart öllu ofangreindu.

Lætur þú berast með straumnum?

Alvarleikann má ekki vanmeta. Allt framangreint skapar jarðveg fyrir valdboðsstjórnmál, sem krefjast þess að fólk hlýði valdhöfum. Þetta er m.ö.o. andstætt frjálslyndri lýðræðishefð sem byggir á málfrelsi, sjálfræði og sjálfsábyrgð einstaklingsins. 

En af því að ,,góða fólkið" hefur ekki bara ,,réttar skoðanir" heldur er líka svo ,,vel meinandi" þá er gagnrýni illa séð og henni illa tekið.

Stattu með sjálfum þér, talaðu með þinni eigin rödd, fylgdu þínu eigin hjarta. 

 

Í þessari eitruðu menningu mun ekkert breytast fyrr en fleiri þora að hugsa fyrir sjálfan sig, leita sannleikans og standa með eigin sannfæringu, án ótta við að vera uppnefndur sem afturhald, sérviskupúki, rugludallur o.fl. Ef hjörðin á ekki að hlaupa fram af næstu bjargbrún þurfum við fleiri sérvitringa, ekki færri. 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband