Ekki láta blekkjast: ETS snýst um peninga fremur en umhverfisvernd.

Samkvæmt nýjustu fréttum verður ný til­skip­un ESB, um los­un­ar­kvóta fyr­ir skipa­fé­lög, tek­in upp á Íslandi án beiðni um und­anþágu.

Ráðamenn Íslands verða að fara að átta sig á því að það er ekkert til sem heitir sjálfvirkt stjórnarfar. Það er ekki hægt að útvista lagasetningu og stefnumörkun til erlendra stofnana sem bera ekki skynbragð á sérstöðu Íslands og skeyta ekki um íslenska hagsmuni. Ráðherrar í ríkisstjórn Íslands voru kosnir til að hafa hönd á stýrinu, ekki sleppa því í ábyrgðarleysi

Um leið er tímabært að menn átti sig á því að ETS snýst ekki um umhverfisvernd heldur peninga. Með sama hætti verða Íslendingar að átta sig á eðli ESB, sem snýst um að afnema viðskiptahindranir inn á við, en út á við eru reistar alls konar viðskiptahindranir til að hækka verð á aðfluttum vörum. Skattur og gjöld á skipafélög koma að góðum notum í þessu tilliti því kjarnaríki ESB reiða sig ekki á slíkar flutningsleiðir innan ESB. ESB er því nokkurs konar samráðshringur sem slær skjaldborg um eigin framleiðslu en reisir múra til að verjast innflutningi annars staðar frá. ETS kerfið skaðar augljóslega íslenska hagsmuni. Enn og aftur afhjúpast að íslensk stjórnvöld eru ekki með augun á boltanum og hafa ekki reynt að lágmarka tjónið með því að biðja um undanþágur. 

Þegar EES samningurinn var leiddur í lög hérlendis datt engum í hug að árið 2023 yrði hann notaður af erlendum yfirvöldum til að leggja skatt á íslensk fyrirtæki. Á lagamáli má kenna þessa framkvæmd við forsendubrest. Á tungumáli nútímastjórnmála eru notuð alls konar fín orð til að breiða yfir þá staðreynd að þetta eru í reynd einhvers konar aflátsbréf sem greidd eru til hákirkju hins pólitíska rétttrúnaðar í Brussel, án þess að nokkur sáluhjálp fylgi í reynd og án þess að æðstu prestar ESB geri nokkra grein fyrir hvernig þessum gjöldum er ráðstafað. 

Alvarlegast er þó að horfa upp á skeytingarleysi íslenskra yfirvalda og hve hirðulaust stjórnarfarið hér er orðið. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband