Dauðateygjur eða nagli í líkkistuna?

Í grein á Krossgötum í gær vitnaði ég til Benjamíns Franklin. Eftir að hafa fylgst með vanhugsaðri og illa framsettri vantrauststillögu stjórnarandstöðunnar í gær, þar sem Alþingi var að nauðsynjalausu breytt í leikhús fáránleikans, rifjuðust upp orð annars manns sem einnig átti frumkvæði að stofnun Bandaríkjanna: ,,Lýðræði endist ekki lengi. Það tærist fljótt, eyðist og tortímir sjálfu sér. Hvergi hefur lýðræði komist á fót sem framdi ekki sjálfsmorð" (John Adams 1735-1826).

Ef skrípaleikurinn sem var til sýnis í þingsal Alþingis í gær var til merkis um að lýðræðið hér sé í dauðateygjunum, þá er þetta nýja frumvarp mögulega nagli í líkkistuna.

Alþingi og íslenskur réttur gengisfelldur? 

Sem lögfræðingur og lýðræðissinni er ég sleginn yfir því að komið sé fram lagafrumvarp þar sem því er slegið föstu sem meginreglu að reglur EES skuli ganga framar lögum frá Alþingi. Að mínu viti stenst þetta ekki stjórnarskrá og gengur í bága við grunnstefnu Sjálfstæðisflokksins. Auk þess verður að benda á að út frá samningsforsendum Íslendinga 1993 ætti þessi breytingartillaga að hljóma þveröfugt við það sem nú er lagt til. Betra hefði verið að hún hljómaði svona: 

  • ,,Ef skýrt og óskilyrt lagaákvæði sem réttilega innleiðir skuldbindingu samkvæmt EES-samningnum er ósamrýmanlegt öðru almennu lagaákvæði skulu íslensk lög ganga framar, nema Alþingi hafi mælt fyrir um annað. Sama á við um skuldbindingar sem eru innleiddar með stjórnvaldsfyrirmælum". [Leturbr. AÞJ]

Þung undiralda

Á málfundi sem ég sótti í gær fékk ég hljóðnemann óvænt í hendur og gerði þetta að umtalsefni. Bara svo það komi skýrt fram, þá er ég þeirrar skoðunar að menn ættu í lengstu lög að reyna að vinna að framgangi sinna stefnumála innan þeirra stjórnmálaflokka sem fyrir eru. Sjálfur vil ég gera allt sem í mínu valdi stendur til að rétta kúrsinn hjá Sjálfstæðisflokknum. Hvort það mun hafa eitthvað að segja er alls óvíst. Öllum má þó vera ljóst að það er þung og vaxandi undiralda í samfélaginu vegna þess lýðræðisskorts sem Íslendingar búa við innan EES og þess hvernig réttaröryggi borgaranna er ógnað ef framangreint frumvarp nær fram að ganga.

Lokaorð

Stjórnmálaflokkar eiga ekki kjósendur sína. Ef haldið verður áfram að ögra fólki með ólýðræðislegri lagasetningu (að formi og efni), og ef stjórnmálaflokkar fara ekki að sýna hollustu við stefnumið sín og knýjandi hagsmuni landsmanna, þá munu kjósendur óhjákvæmilega hætta að sýna flokkunum hollustu og stuðning. Tíminn verður að leiða í ljós hvort lýðræðið verður þar með dautt og grafið eða hvort það rís upp til nýs lífs.   

 


Þjóð sem tekur ekki ábyrgð á eigin frelsi getur ekki kvartað þegar það glatast

 

Með því að ganga stöðugt lengra í að framselja vald úr landi til ESB og alþjóðastofnana eins og SÞ eru Íslendingar smám saman að gera lýðveldið sitt að innantómri skel, þar sem valdhafar þurfa ekki að hlusta á vilja kjósenda og svara ekki til ábyrgðar gagnvart almenningi.
 
Aðrar þjóðir hafa fært miklar fórnir til að verða frjálsar og fá að setja sín eigin lög. Íslendingar, á hinn bóginn, gefa þetta frá sér án þess að depla auga, án umræðu, án áhuga. Með þetta í huga skrifaði ég þessa grein sem birt er á Krossgötum í dag.
 

Í samfélagi þar sem allir hugsa eins, þar hugsar enginn

Ég ,,mismælti" mig hér í færslu 25.3. sl. þegar ég vísaði til þess að hjörð hugsi. Réttara hefði verið að segja sem er: Hjörðin trampar og traðkar, en hugsar alls ekki. Hjörð getur ekki hugsað, heldur aðeins einstaklingarnir innan hjarðarinnar. Þegar allir eru farnir að vísa til álits annarra, þá hugsar enginn lengur sjálfstætt. 

Lýðræðislegt stjórnarfar deyr ef enginn hugsar sjálfstætt

Hvernig má þekkja mun á þeim sem a)hugsar sjálfur og þeim sem b)láta aðra hugsa fyrir sig? Sá sem hugsar sjálfur leitast við að byggja afstöðu sína á fyrirliggjandi staðreyndum. Sá sem lætur aðra forrita á sér heilann og talar út frá handriti sem aðrir semja gerir sjálfan sig að ,,skoðanaþega". Sá sem lætur berast með hugsunarlaust með straumnum gerir samfélagi sínu engan greiða. Þvert á móti bregst hann lýðræðislegri skyldu sinni til sjálfstæðrar skoðanamyndunar. 

Kreddustjórnmál eru viðkvæm fyrir gagnrýni

Ef það er rétt að við búum nú í samfélagi þar sem fáir hugsa, er staðan sú að stærstur hluti fólks hefur fengið skoðanir sínar að láni. Þetta sama fólk getur hafa sannfært sig um að þau hafi rétt fyrir sér og að skoðun þeirra sé siðferðilega góð, vísindaleg eða rétt. En ef afstaðan stenst enga skoðun, þolir ekki gagnrýni og brotnar þegar hún mætir raunveruleikanum þá er skýringin líklegast sú að hún byggir á huglægum en ekki hlutlægum veruleika.

Ýmsum ráðum má beita til að koma í veg fyrir að veikleikar kreddunnar afhjúpist. Efasemdir má stimpla sem ,,upplýsingaóreiðu", óþægileg sjónarhorn má stimpla sem ,,falsfréttir", gagnrýni má stimpla sem ,,samsæriskenningar", óþægilegar staðhæfingar má stimpla sem ,,hatursorðræðu". [Innskot: Þetta eru aðeins dæmi, ekki réttlæting höfundar á illyrðum, útúrsnúningum eða hatri sem því miður má víða finna].   

Mögulega skýrir þetta þróun mála sl. ár, þar sem

  • opinberar stofnanir freista þess að stýra umræðunni með því að fá almenning og blaðamenn til sjálfs-ritskoðunar (sjá t.d. ,,Árvekni-átak" Fjölmiðlanefndar 2021),
  • tilhneigingu gætir í þá átt að gera alla fjölmiðla landsins háða ríkisvaldinu (með opinberum fjárveitingum),
  • samfélagsmiðlar sýna þöggunar- og ritskoðunartilburði,
  • slaufunar- og útilokunarmenning ríkir,
  • fjölmiðlar sýna andvaraleysi gagnvart öllu ofangreindu.

Lætur þú berast með straumnum?

Alvarleikann má ekki vanmeta. Allt framangreint skapar jarðveg fyrir valdboðsstjórnmál, sem krefjast þess að fólk hlýði valdhöfum. Þetta er m.ö.o. andstætt frjálslyndri lýðræðishefð sem byggir á málfrelsi, sjálfræði og sjálfsábyrgð einstaklingsins. 

En af því að ,,góða fólkið" hefur ekki bara ,,réttar skoðanir" heldur er líka svo ,,vel meinandi" þá er gagnrýni illa séð og henni illa tekið.

Stattu með sjálfum þér, talaðu með þinni eigin rödd, fylgdu þínu eigin hjarta. 

 

Í þessari eitruðu menningu mun ekkert breytast fyrr en fleiri þora að hugsa fyrir sjálfan sig, leita sannleikans og standa með eigin sannfæringu, án ótta við að vera uppnefndur sem afturhald, sérviskupúki, rugludallur o.fl. Ef hjörðin á ekki að hlaupa fram af næstu bjargbrún þurfum við fleiri sérvitringa, ekki færri. 

 

 

 

 

 


EES leikmyndin er að hrynja

Í viðtali við Morgunblaðið í dag lýsir Stefán Már Stefánsson lagaprófessor veikri stöðu Íslands innan EES. Sú staða er í stuttu máli óviðunandi í lagalegu og lýðræðislegu tilliti. Til að bæta gráu ofan á svart er nú komið fram nýtt frumvarp utanríkisráðherra sem felur í sér að EES reglur skuli hafa forgang fram yfir lög frá Alþingi. Stefán Már varar við þessu og segir að með þessu væri vegið að réttaröryggi borgaranna. ,,Borgararnir eiga að geta treyst því sem fram kemur í íslenskum lögum". 

EES í núverandi mynd stenst ekki lengur stjórnarskrá

Allir sem þekkja sögu EES samningsins vita að hann var með naumindum talinn standast stjórnarskrá Íslands árið 1993. Síðan þá hefur samningsaðili okkar umbreyst úr ríkjasambandi í vísi að sambandsríki, auk þess sem alls konar svið hafa verið felld undir samninginn sem aldrei voru til umræðu 1993. 

Smám saman hefur framkvæmd EES þrengt sífellt meir að fullveldisrétti Íslands. Nú er svo komið að öllum má vera ljóst að fyrirkomulagið gengur í berhögg við stjórnarskrána.

Hollustuvilla? 

Í meðvirkni eða hugsunarleysi hafa stjórnmálamenn og embættismenn gengið í þjónustu ESB þannig að jafnvel mætti halda að þau telji sig hafa ríkari hollustuskyldu við ESB en íbúa Íslands. Þetta er óverjandi.

Á skólalóðinni hefur veiklundað fólk tilhneigingu til að sýna yfirgangsseggjum undirgefni og hlýðni. Það er skiljanlegt að fólk vilji, í sjálfsbjargarskyni, reyna að laga sig að siðum og hugsunarhætti þeirra sem öllu vilja ráða. En sá sem þorir ekki að verja eigin hagsmuni, þorir ekki að standa með öðrum þegar að þeim er vegið og leggur alla áherslu á að bjarga eigin skinni, hvað sem það kostar, stendur eftir með laskaða sjálfsmynd, flekkaða samvisku og skerta sjálfsvirðingu.

Með hugleysi og aumingjaskap getum við komist hjá því að verða sjálf fyrir beinum yfirgangi og ofríki, en þegar allur hópurinn, allt samfélagið, allt löggjafarþingið, sameinast í taugaveiklaðri meðvirkni hefur þögnin alvarlegar afleiðingar. Þær afleiðingar eru þegar komnar fram og birtast daglega í stjórnmálaumræðu sem stöðugt verður vanþroskaðri og yfirborðslegri. 

Stjórnmál eru alvarlegt viðfangsefni, ekki leikrit

Leikmynd EES, sem sett var upp árið 1993, er að hrynja, en íslenskir stjórnmálamenn spranga enn um á sviðinu og leika hlutverk fólks sem einhverju ræður. Úr fjarlægð sér almenningur stöðugt betur hversu ótrúverðugir leikararnir eru. Þegar leikmyndin hrynur verða leikararnir að láta grímurnar falla, sleppa handritinu og takast á við raunveruleikann. Kjánahrollurinn verður gagnkvæmur og óþægilegur. Áhorfendur munu margir vilja ganga út og fá endurgreitt. Leikarar gætu þurft áfallahjálp og nýtt starf í framhaldinu.  


mbl.is Algjörlega breyttar forsendur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sofandaháttur Íslendinga mun fara í sögubækurnar

Allir ættu að lesa grein Sigríðar Andersen í laugardagsblaði Moggans. Þar fjallar hún um fyrirhugaðar breytingar á löggjöf ESB um flugferðir, sem að öllu óbreyttu munu stórskaða íslenska hagsmuni. Sigríður undrast réttilega hve lítið hefur verið rætt um málið á Alþingi. Sú þögn er því miður aðeins myndbirting þess farþegahlutverks og áhrifaleysis sem Íslandi hefur verið valið innan EES. Afleiðingin er sú að Alþingi er að breytast í áhrifalaust leikhús, þar sem erlendar reglur eru samþykktar umræðulaust, en embættismenn eru gerðir að ,,lobbíistum". Þetta er umbreyting og afturför sem á sér enga stoð í stjórnarskrá Íslands. 

Í fréttum kemur fram að tugir árangurslausra funda hafi verið haldnir um þetta mál. Það hefur þótt vera til marks um einhvers konar vitfirringu að margítreka sömu athöfn og ímynda sér að niðurstaðan verði önnur. 

Ef Íslendingar stæðu vörð um lýðræðislegt stjórnarfar gætu þeir séð og viðurkennt að það er með öllu óásættanlegt að við fáum lögin send hingað í formi tilskipana sem við höfum ekkert um að segja, hvorki til að breyta efni þeirra né til að hafna þeim. Til að bæta gráu ofan á svart svarar „löggjafinn“ (lesist: ESB) ekki til neinnar ábyrgðar gagnvart okkur sem móttakendum þessara sömu reglna. Hlutverk okkar er aðeins eitt í þessu samhengi: Að hlýða.

Hvað heitir þetta stjórnarfyrirkomulag á mannamáli annað en ofríki? Hvers vegna ættu Íslendingar að lúta lögum sem þannig verða til og er beint til okkar með þeim hætti sem hér var lýst? 


Á háværasta fólkið að ráða för?

Í menningu sem snýst um ásýnd, útlit og kynferði fremur en að göfga innri mann og efla siðferðisþrek, er fólk orðið vant því að fylgja hjörðinni frekar en að beita gagnrýninni hugsun. Bergmálshellir samfélagsmiðla kemur að góðu gagni fyrir þá sem vilja heyra hvað hjörðin er að hugsa þá stundina, þ.e. hver er vinsælasta skoðunin.

Sá sem vill vega að sannleikanum tekur mikla áhættu

Í afhelguðu efnishyggjusamfélagi nútímans hefur afstæðishyggja gert sannleikann að olnbogabarni. Sannleikurinn er ekki lengur hlutlægur, heldur huglægur. Réttlætið er þá ekki lengur blint: Sannleiksgildi orða fer eftir því hver talar. Sagan sýnir að þegar sannleikurinn „deyr“ opnast dyr alræðis og harðstjórnar, sem umber enga sjálfstæða hugsun. Þetta birtist m.a. í því hvernig ritskoðun, skoðanakúgun og þöggun dafna á tímum afstæðishyggju. 

Afstæðishyggja veldur óförum

Í andrúmslofti afstæðishyggju eru staðreyndir gengisfelldar, en lygin réttlætt. Stendur þá nokkuð í vegi fyrir því að menn setji fram ósannindi í eiginhagsmunaskyni?

Í slíku andrúmslofti leyfa stjórnmálamenn sér að setja fram innantóm loforð þótt öllum sé ljóst að þau verði aldrei efnd. Á slíkum forsendum leyfa sérfræðingar sér að gera tilkall til áhrifa með því að setja fram óraunsæjar lausnir.

Þessi vegferð byrjar með því að menn gangast undir að allt sé afstætt og að enginn sannleikur sé til. Tilvera manna í slíkum heimi leysist fyrr eða síðar upp í baráttu um skilgreiningarvaldið, þ.e. hverjum leyfist að skilgreina hvað teljist rétt og hvað rangt. Þetta vald færist svo milli þeirra sem háværastir eru hverju sinni.

Þegar siðmenning verður afstæðishyggju að bráð er almenningur ofurseldur hreinni valdbeitingu. Ástæðan er sú að í slíku umhverfi er það valdið eitt sem ræður úrslitum. Útilokun staðreynda og afneitun sannleika er því skjótasta leiðin í átt til harðstjórnar þar sem lögin geta kveðið á um hvað sem er. Í slíku lagaumhverfi, þar sem lög eru notuð til að svipta menn lífi, frelsi og eignum, þar sem ógn og kúgun er leyfð í nafni réttlætis, verða lögmenn að þrælum, lögreglumenn að böðlum og dómarar að nokkurs konar „veraldlegum prestum“ sem leggja blessun sína yfir það sem fram fer í nafni laganna.

Lokaorð

Við slíkar aðstæður hefur hlutverk réttlætisgyðjunnar umpólast: Hún fer í manngreinarálit, beitir valdi að geðþótta, mismunar fólki (t.d. eftir kynferði), stefnir að vinsældum en ekki réttvísi. Réttlætisgyðjan þjónar þá ekki lengur réttarríkinu heldur valdinu eins og það birtist á hverjum tíma.   


Hvaðan stafar mesta ógnin?

Á forsíðu Moggans í dag kemur fram að íslenskir háskólar hafi stofnað vinnuhóp til að bregðast við notkun spjallmenna og annarrar gervigreindar á háskólastigi. Fulltrúar skólanna hafi komið saman í síðustu viku til að greina tækifæri og hættur sem þessari tækni fylgja. Sérstaklega er í fréttinni vísað til þess að ,,raunþekking" sé aldrei mikilvægari en nú „þegar sérhagsmunaaðilar dæli efni inn á netið til að auka líkur á að spjallmenni nýti sér það.“  

Þetta er gott og blessað, en hafa fulltrúar skólanna komið saman til að greina hættur af vöntun á mannlegri greind, skorti á gagnrýninni hugsun og hjarðhugsun nú þegar sérhagsmunaaðilar dæla efni inn á netið til að auka líkur á að fræðimenn nýti sér það?

Síðustu misseri hafa afhjúpað að hin frjálsa samfélagsgerð býr við viðvarandi tækniógn. Þetta birtist m.a. í því hvernig stjórnvöld afhentu „sérfræðingum“ valdataumana, hvernig áróðursvélar voru ræstar í nafni „vísinda“, hvernig ritskoðun var beitt í þágu alþjóðlegra stórfyrirtækja (lesist: lyfjarisa), hvernig vísindaleg rökræða var kæfð niður, hvernig efasemdamenn voru rægðir opinberlega og hvernig lögmæt mótæli voru barin niður með valdi víða um heim.

Í framangreindu ljósi væri ráðlegt að efla gagnrýna hugsun í skólakerfinu öllu. Þar þarf að leggja áherslu á að menn trúi ekki sérfræðingum í blindni, samþykki ekki allt fyrirvaralaust sem heyrist í fréttum og beini ekki vægðarlausri grimmd og dómhörku að þeim sem vilja horfa á hlutina frá öðru sjónarhorni.

Mannlegu frelsi stafar meiri hætta frá okkur sjálfum en ytri ógnum. Við erum okkar verstu óvinir. Tilhneiging okkar til hjarðhugsunar rænir okkur dómgreind, skynsemi og yfirvegun. Þessir mannlegu veikleikar hafa í sögulegu samhengi leitt verri hamfarir yfir okkur en nokkrar náttúruhamfarir hafa gert.


mbl.is Vinnuhópur bregst við notkun gervigreindar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Treystum dómgreind almennings.

Hvort ætli sé meiri ógn við lýðræði og mannréttindi: Skautun í umræðunni eða ritskoðun og þöggun? Í umræðum um ,,aðgerðaáætlun gegn hatursorðræðu" á Alþingi 8. mars sl. virtist forsætisráðherra hafa meiri áhyggjur af því fyrrnefnda. Af þeirri ástæðu vill hún leggja höft á tjáningu landsmanna og senda okkur á námskeið til að við lærum að hugsa ,,rétt" og tala ,,rétt". Forsætisráðherra gleymir að tjáningarfrelsið er súrefni lýðræðisins og að mannréttindi verða ekki varin án þess.

Frá stofnun Sjálfstæðisflokksins hefur honum verið ætlað að standa vörð um frelsi fólks til orðs og athafna. Hvar voru þingmenn Sjálfstæðisflokks í umræðunum 8.3. sl.? Ber fjarvera þeirra vott um óheilbrigt ástand lýðræðis okkar? Hafa stjórnarflokkarnir þrír runnið saman í vanheilagt bandalag þannig að við stöndum nú frammi fyrir óhollri samsuðu, þar sem umræða um grundvallarmál er drepin niður, þar sem pólitískar málamiðlanir eru teknar fram yfir hagsmuni almennings og þar sem skammtímahagsmunir yfirtrompa pólitísk prinsipp? 

Hér á þessum stað vitnaði ég í gær til Guðmundar Sigurðar Jóhannssonar, sem kunni vel þá list að koma fyrir sig orði. Hann var á móti því að stjórnmálamenn og embættismenn reyndu að hafa vit fyrir fullorðnu fólki og hvatti fólk til að láta af slíkum ,,bróðurgæslukomplexum" og ,,brunnbyrgingaþrugli". Er ekki affarasælast að hver og einn taki ábyrgð á orðum sínum og gjörðum, hér eftir sem hingað til?

Tjáning með orðum er það mannlegasta af öllu. Ríkið á ekki að þrengja sér inn á það svið með það fyrir augum að stýra, hefta og þagga. Ef hver og einn á samtal við sjálfan sig og leggur sig fram um að tala fallega um og til annarra hlýtur það að vera betri leið að bættum samskiptum.  

 


Sá sem vill hafa vit fyrir öðrum þarf að vera aflögufær um vit.

Ríkisvaldi var komið á fót til að þjóna okkur, ekki til að drottna yfir okkur. Þetta ættu Íslendingar að muna af virðingu við þá sem fyrst numu hér land til að geta lifað í frelsi frá þrúgandi miðstýrðu valdi. 

Daglega sjáum við og finnum hvernig þrengt er að frelsi okkar, sjálfsákvörðunarrétti, eignarétti o.fl. Hér á þessum vettvangi hef ég síðustu daga dregið upp mynd af því hvernig sótt er að hagsmunum okkar, bæði lóðrétt og láréttLárétta pressan kemur frá flokkum, félögum og einstaklingum sem vilja að við gerum eins og þau segja (göngum í takt). Lóðrétta pressan kemur frá ríkisvaldi og yfirþjóðlegum stofnunum sem telja sig hafa rétt og jafnvel skyldu til að ,,hafa vit fyrir" okkur.

Um þessa viðleitni sagði Guðmundur Jóhann Sigurðsson eftirfarandi orð í ,,kjallaragrein" í DV 26. maí 1988 eftir að Alþingi hafði ákveðið að ,,leyfa sölu áfengs bjórs". Ég gef Guðmundi Sigurði orðið því þetta eru gullmolar sem skína best sjálfstætt:  

  • ,,[...] þar kom nú loks, að vilji meirihlutans náði fram að ganga þrátt fyrir að fámennur öfgahópur afturhaldssamra sérviskuþursa reri að því öllum árum að ,,haft yrði vit fyrir" almenningi í þessum efnum hér eftir sem hingað til"
  • ,,Það má teljast dæmafár hroki og ósvífni af fólki, sem á að heita heilvita, að telja sig þess umkomið ,,að hafa vit fyrir" fullorðnum lögráða meðbróður sínum í þeim sökum hvaða neysluvörur hann lætur inn fyrir sínar varir. Er það mála sannast, að flestir þeir menn sem hvað áfjáðastir eru í að ,,hafa vit fyrir" öðrum eru lítt eða ekki aflögufærir um vit". [Leturbr. AÞJ]

Ef Guðmundur Sigurður heitinn vissi að beturvitaháttur þessa sama fólks er nú kominn á það stig að þau vilji stýra því hvaða orð við látum út fyrir okkar varir, þá myndi hann vafalaust snúa sér við í gröfinni. 

Hugmyndir stjórnvalda um hatursorðræðu, ritskoðun og eftirlit með fullorðnu fólki ættu að vera eitur í beinum allra þeirra sem unna frelsi sínu og annarra til orðs og athafna. 

 

 

 

 


Um merkimiðapólitík (e. identity politics)

Er það ekki örugglega rétt skilið að við Íslendingar viljum ,,fagna fjölbreytileikanum"? En hvað felst í þessu? Snýst þetta mögulega meira um ásýnd en innihald? Ég spyr því áherslan á ,,fjölbreytileikann" virðist í framkvæmd ala af sér kröfu um fábreytileika í hugsun. Stöndum við hér frammi fyrir kreddu sem lamar vitræna umræðu í stað þess að styrkja hana? 

Mannkynssagan geymir mörg dæmi um það hvernig aðskilnaðarstefnu hefur verið beitt til að skilja á milli trúarhópa, kynþátta o.s.frv. Á okkar tímum eru dregnar stöðugt skarpari aðgreiningarlínur milli fólks á grundvelli skoðana. Í þessu andrúmslofti sjáum við fólk leita skjóls í hópi með öðrum og kasta þaðan grjóti í þá sem standa utan hópsins.

Herskáir leiðtogar gera kröfu um hollustu liðsmanna. Sá sem vill tilheyra hópnum þarf að sýna hollustu sína í orðum og verki. Á móti kemur að viðkomandi getur notað stefnuskrána / kredduna til að leysa sjálfan sig úr höftum eigin samvisku, þagga niður í innri efasemdum og víkja sér undan persónulegri gagnrýni. Með fögrum orðum býðst veiklunduðu fólki skjól í kreddunni og öryggi í hópnum. Í þeim jarðvegi má reyna að rækta sjálfsmynd, sem þó verður aldrei sönn og persónuleg. Fölsk sjálfsmynd kallar á dyggðaskreytingu (e. virtue signalling) til að sanna sig inn á við og út á við. Þegar hlutverkaleikurinn hefur náð því stigi, þ.e. þegar menn eru farnir að halda að þeir séu gríman sem þeir fela sig á bak við, þá umbreytist allt lífið í leikhús (fáránleikans). Sönn tjáskipti verða æ sjaldgæfari. Einlægni og trúnaður hverfa af sviðinu. Eftir standa gervipersónur í samkeppni um að yfirtaka sviðið (,,stela senunni"). 

Hefðbundin trúarbrögð geyma sterkan þráð sem vara við sjálfsréttlætingu, þ.e. að menn ímyndi sér að þeir séu betri en aðrir. Hugmyndafræðilegar kreddur nútímans hvetja til sjálfsupphafningar: Meðlimir ,,okkar hóps" eru réttlátari en aðrir og hafa því fullt leyfi til að dæma aðra. Kreddan er þá orðin að kylfu sem notuð er til reyna að berja aðra til hlýðni. 

Innan sérhvers hóps er nefnilega ætlast til þess að allir hugsi eins. Kreddan er þá orðin hluti af sjálfsmyndinni. Þeir sem gerast sekir um hugsanavillur / hugsanaglæpi eru útskúfaðir. 

Þetta er vítahringur sem kæfir niður frjálsa sannleiksleit og gagnrýna hugsun. Slíkur vítahringur verður ekki rofinn nema með því að menn þori að vera þeir sjálfir. Hlýða sinni eigin samvisku. Beita sinni eigin dómgreind. Tala sinni eigin röddu.

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband